Segjast hafa hreinan skjöld

Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með …
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Talsmaður starfsmannaleigunnar Menn í vinnu ehf. segir fyrirtækið hafa hreina samvisku í máli rúmenskra verkamanna sem grunur er um að hafi verið í nauðungarvinnu hjá fyrirtækinu. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er það rangt að mennirnir hafi ekki fengið útborguð laun samkvæmt taxta og að þeir séu peningalausir. Sem dæmi hafi einn þeirra fengið 300-350 þúsund krónur útborgaðar á mánuði eftir skatt og húsaleigu og þar að auki haft bíl til umráða endurgjaldslaust. 

Þá sé rangt sé að mennirnir hafi verið fastir á Íslandi í fjóra mánuði og komist ekki heim, þeir hafi t.a.m. haldið úr landi í jólafrí í rúmlega mánuð og snúið aftur í janúar. Fyrirtækið segir mennina hafa flutt inn í hús á vegum fyrirtækisins eftir áramót og neitað að yfirgefa það þegar þeir höfðu ráðið sig beint í störf hjá verktaka án þess að hafa unnið út uppsagnarfrest. Þegar leitast hafi verið eftir því að þeir greiddu leigu fyrir húsnæðið hafi þeir neitað að flytja og haft í hótunum við starfsmenn fyrirtækisins. 

Engin ástæða til að rengja frásögn mannanna

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir að ASÍ hafi enga ástæðu til að rengja frásögn mannanna. Rannsókn standi nú yfir og gagnaöflun og stéttarfélagið Efling annist hana, en mennirnir eru allir félagsmenn þar. 

„Við höfum ekki dregið neinar ályktanir aðrar en þær að miðað við það sem komið hefur fram hjá mönnunum er þarna um alvarlega brotastarfsemi að ræða. Við erum núna að safna gögnum frá þessum aðilum, bæði ráðningasamningum, launaseðlum, tímaskriftum og bankainnleggjum. Síðan verður unnið úr þeim og þá kemur betur í ljós hvernig staðan er í raun og veru,“ segir hann. 

Vakið hefur athygli að gagnvart eftirlitsaðilum virðist allt eftir bókinni hjá fyrirtækinu, en að frásögn mannanna sé á skjön við þá mynd sem þar er dregin upp. Halldór segir að með gagnaöfluninni verði reynt að sannreyna frásögn mannanna.

„Við höfum umsagnirnar og vitum að rúmenskir verkamenn á Íslandi sem eru háðir sinni atvinnu grípa ekki til svona aðgerða að ástæðulausu. Við teljum engar líkur til þess. Við höfum enga ástæðu til að rengja þessa menn,“ segir hann og bendir á að fyrirtækið hafi um nokkurn tíma verið í sérstakri skoðun hjá ASÍ.

„Forsvarsmenn þessa fyrirtækis eru fyrrum forsvarsmenn Verkleigunnar sem var ekki alveg með hreinan skjöld, eins og við þekkjum frá síðasta ári þegar það fyrirtæki lenti í innheimtuaðgerðum hjá Eflingu, endaði síðar í þroti og tugmilljóna kröfur enduðu hjá ríkissjóði,“ segir hann.

„Það sem er vont í þessu er líka að það eru heiðarleg fyrirtæki í þessum bransa og þau liggja undir ámæli meðan svona er. Svo það sé nefnt, þá hefur þetta fyrirtæki, ólíkt sumum öðrum, ekki óskað eftir því að fara gegnum sérstaka skoðun okkar og Samtaka atvinnulífsins um rekstur þess,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert