Tungubit ekki til Hæstaréttar

Áströlsk kona, sem var dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa bitið bút úr tungu eiginmanns síns, íhugar að fara með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hæstiréttur hafnaði málskotsbeiðni konunnar í vikunni, að því er fram kemur í frétt 9News.

Konan, Nara Walker, var dæmd fyrir stórfellt ofbeldisbrot í nánu sambandi fyrir héraði í mars og Landsrétti í desember. Landsréttur þyngdi dóm yfir Walker úr árs fangelsi í 18 mánuði, þar af 15 mánuði skilorðsbundna. 

Walker beit 2,5 sentimetra bút af tungu eig­in­manns síns í nóv­em­ber 2017 eftir að hafa verið úti að skemmta sér ásamt honum fyrr um kvöldið. Þau buðu fólki með sér heim en fram kemur í dómi Landsréttar að hjónin hafi verið í „opnu sam­bandi“ og að maður­inn hafi byrjað að kyssa hina kon­una. Í fram­hald­inu hafi eig­in­kon­an farið að kyssa hinn mann­inn, en eig­inmaður henn­ar hafi þá brugðist reiður við og í fram­hal­dinu hófst mikið rifr­ildi. 

Henti eig­inmaður­inn ­mann­in­um úr íbúðinni. Eig­in­kon­an réðst hins veg­ar að hinni kon­unni, sem var sam­eig­in­leg vin­kona hjón­anna, reif í hár henn­ar og beit í fing­ur henn­ar. Var Walker einnig dæmd fyrir ofbeldi gagnvart henni. 

Í viðtali við 9News segist hún hafa búið við ofbeldi af hálfu eiginmannsins og að hún ætli að halda baráttunni áfram gegn heimilisofbeldi.

Í viðtalinu lýsir hún hrottalegu heimilisofbeldi, nauðgunum, líkamlegu ofbeldi, eiturbyrlunum og að um sjálfsvörn hafi verið að ræða. Hún gagnrýnir íslenskt réttarkerfi og segir að þar séu hagsmunir ofbeldisfólks metnir meira en þolandans.

Í málskotsbeiðni til Hæstaréttar vísar hún til skorts á ákvæðum í íslenskum lögum varðandi sjálfsvörn og fleira og ósamræmi í vitnisburði fyrrverandi eiginmanns hennar og núverandi sambýliskonu hans, sem er konan sem Walker réðst á og var dæmd fyrir ofbeldi gagnvart. 

Walker segir að fyrrverandi eiginmaður hennar og konan hafi logið til um samband sitt fyrir dómi og ekki hafi verið tekið tillit til hennar áverka sem og áverka mannsins sem varð fyrir ofbeldi af hálfu eiginmannsins þessa umræddu nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert