20% karla verða ölvaðir í hverri viku

AFP

Fimmtungur karla í öllum aldurshópum drakk sig ölvaðan í hverri viku á Íslandi í fyrra. Ölvunardrykkja karla í elsta aldurshópnum er nærri fjórfalt meiri en hjá konum í sama aldurshópi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í talnabrunni embættis landlæknis sem kom út í gær.

Þegar spurt var um ölvunardrykkju árið 2018, þ.e. neyslu á fimm eða fleiri áfengum drykkjum á einum degi síðastliðna 12 mánuði, sögðust tæplega 42% karla að jafnaði drekka sig ölvaða einu sinni í mánuði eða oftar en hlutfallið var um 40% árið 2017.Talsvert færri konur sögðust hins vegar verða ölvaðar einu sinni í mánuði eða oftar árið 2018, eða um 19%, og hefur hlutfallið lækkað um u.þ.b. þrjú prósentustig frá fyrra ári.

AFP

Ef þetta hlutfall er heimfært upp á þjóðina alla má gera ráð fyrir því að minnsta kosti 55 þúsund karlmenn og 24 þúsund konur, 18 ára og eldri, hafi drukkið sig ölvaða einu sinni í mánuði eða oftar á síðastliðnu ári.

Árið 2017 sögðust 52% karla í aldurshópnum 18 til 34 ára drekka sig ölvaða einu sinni í mánuði eða oftar, samanborið við um 54% karla á sama aldri árið 2018. Þá sögðust um 30% karla í elsta aldurshópnum drekka sig ölvaða einu sinni í mánuði eða oftar árið 2017 samanborið við um 35% árið 2018.

Mun algengara er að konur yfir 35 ára aldri hafi aldrei orðið ölvaðar undanfarna 12 mánuði heldur en karlar á sama aldri. Minni munur er hins vegar milli kynja í yngsta aldurshópnum hvað þetta varðar. Konum sem sögðust ekki hafa drukkið fimm eða fleiri áfenga drykki við sama tilefni síðastliðna 12 mánuði fjölgar með hækkandi aldri, úr 24% í aldurshópnum 18 til 34 ára í 62% í aldurshópnum 55 ára og eldri. Þessi munur á aldurshópum er nokkuð minni hjá körlum.

„Í ljósi þess hve ölvunardrykkja fullorðinna karla og kvenna er algeng hér á landi er áhugavert að skoða mat Íslendinga á áhættunni sem fylgir því að drekka 5 eða fleiri áfenga drykki. Þegar svarendur voru beðnir um að meta áhættu af ölvunardrykkju um hverja helgi kom í ljós að fleiri karlmenn heldur en konur mátu áhættuna litla eða enga.

Um þriðjungur karlmanna á aldrinum 25 -34 ára mat áhættuna litla eða enga, samanborið við 10% kvenna í sama aldurshópi. Sterk fylgni virðist vera milli mats á áhættu og tíðni ölvunardrykkju.

Þannig mátu rúmlega 42% þeirra sem drukku sig ölvaða einu sinni í viku eða oftar áhættuna af eigin hegðun litla eða enga. Til samanburðar mátu langflestir eða 90% þeirra sem drukku sig ölvaða sjaldnar en mánaðarlega síðastliðna 12 mánuði áhættuna miðlungs eða mikla,“ segir í talnabrunni landlæknis.

12% fullorðinna reykja

Árið 2018 mældust reykingar fullorðinna rúmlega 12%, þar af voru 8,6% sem reykja daglega en tæplega 4% sjaldnar en daglega. Það samsvarar rúmlega 31 þúsund einstaklingum ef tekið er mið af þjóðinni allri.

Helsta breyting milli áranna 2017 og 2018 felst í því að annars vegar reykja heldur færri daglega og hins vegar fjölgar þeim lítillega sem reykja sjaldnar en daglega.

Árið 2018 voru reykingar algengastar hjá körlum á aldrinum 18 til 34 ára eða um 15%. Þar af voru 8% sem reykja daglega og rúmlega 7% sjaldnar en daglega. Í sama aldurshópi kvenna var hlutfallið tæplega 11%, þar sem um 7% reykja daglega og tæplega 4% sjaldnar en daglega.

Öfugt við yngsta aldurshópinn eru reykingar kvenna 55 ára og eldri talsvert algengari heldur en reykingar karla í sama aldurshópi. Um 14% kvenna í þessum elsta aldurshópi reykja, tæplega 11% daglega og 4% sjaldnar en daglega en í sama aldurhópi karla er hlutfallið tæplega 10%, um 7% daglega og 3% sjaldnar en daglega. 

Ungir karlar nota mest munntóbak og rafrettur

Á árinu 2018 notuðu um það bil 6% karla tóbak í vör daglega og hefur það ekki breyst milli ára. Neyslan var algengust meðal ungra karlmanna á aldrinum 18–34 ára. Í þessum yngsta aldurshópi notuðu 14% karla tóbak í vör daglega og rúmlega 6% sjaldnar en daglega. Heildarhlutfall ungra karlmanna sem notar tóbak í vör daglega eða sjaldnar en daglega var því tæplega 21%.

Notkun tóbaks í vör meðal ungra kvenna hefur verið að aukast undanfarin ár og var rúmlega 7% árið 2018, rúmlega 2% daglega og 5% sjaldnar en daglega.

Árið 2018 mældist notkun á rafrettum meðal fullorðinna um 8%, þar af 5% daglega og 3% sjaldnar en daglega. Þetta samsvarar því að tæplega 20 þúsund manns hafi notað rafrettur daglega eða sjaldnar en daglega ef tekið er mið af þjóðinni allri. Þetta er svipað hlutfall og mældist árið 2017.

Algengust er notkun á rafrettum á meðal karla á aldrinum 18 til 34 ára eða um 12%, þar af daglega 7% og 5% sjaldnar en daglega. Dregið hefur úr notkun á rafrettum meðal karla í þessum aldurshópi frá árinu 2017 en þá mældist hún rúmlega 15%, þar af tæplega 9% daglega og rúmlega 6% sjaldnar en daglega. Ekki er mikil munur á milli kynja í þessum aldurshópi.

Þegar aðrir aldurshópar eru skoðaðir sést að karlar nota rafrettur meira en konur í aldurshópnum 35 til 54 ára en konur meira en karlar 55 ára og eldri.

Talnabrunnur embættis landlæknis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert