Kynskráning fari eftir eigin upplifun

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við ræðuhöld á Hinsegin dögum í Reykjavík …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við ræðuhöld á Hinsegin dögum í Reykjavík í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti drög að lagafrumvarpi um kynrænt sjálfræði á ríkisstjórnarfundi í gær. 

Frumvarpið miðar að því að virða og styrkja sjálfsákvörðunarrétt hvers einstakling en í því er lagt til að staðfestur verði með lögum réttur einstaklings til að breyta kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun og án þess að þurfa að sæta þar um skilyrðum líkt og núgildandi lög gera. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Í samræmi við stefnu stjórnarinnar

Þar kemur fram að tillagan sé í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að hún vilji koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex- fólks. Í þeim lögum skyldi kveðið á um að einstaklingar megi sjálfir ákveða kyn sitt, kynvitund þeirra njóti viðurkenningar, einstaklingar njóti líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.

Drögin hafa verið birt í samráðsgáttinni þar sem almenningur og hagsmunaaðilar geta sent inn umsögn við efni frumvarpsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert