ÖSE tekur ekki afstöðu til kosninganna

Dreifing gildishlaðinna og rangra upplýsinga af opinberum aðilum vegna kosninga …
Dreifing gildishlaðinna og rangra upplýsinga af opinberum aðilum vegna kosninga myndi almennt kalla á frekari skoðun af eftirlitsaðilum ÖSE. mbl.is

Dreifing gildishlaðinna og rangra upplýsinga samhliða hvatningu til þess að kjósa í kosningum sem hluti af upplýsingagjöf af hálfu opinberra aðila er almennt eitthvað sem kosningaeftirlit Örygg­is- og sam­vinnu­stofn­un­ar Evr­ópu (ÖSE) myndi taka sérstaklega til skoðunar ef slíkt myndi uppgötvast við framkvæmd kosninga sem stofnunin væri að fylgjast með, segir Thomas Rymer, upplýsingafulltrúa Lýðræðis- og mann­rétt­inda­stofn­un­ar ÖSE í samtali við mbl.is.

Fram kemur í úrskurði Persónuverndar vegna notkun Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2018, að bréf sem send voru ungum kjósendum innihéldu skilaboðum sem voru „gildishlaðin og í einu tilviki röng og voru til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þeirra í kosningunum.“

Einnig voru bréf send „konum 80 ára og eldri og erlendum ríkisborgurum bréf með gildishlöðnum skilaboðum, sem voru til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þeirra í kosningunum,“ að því er segir í úrskurðinum.

Spurður um hvort efni úrskurðar Persónuverndar myndi kalla á frekari skoðun við kosningaeftirlit, segir Rymer að Lýðræðis- og mann­rétt­inda­stofn­un­ ÖSE taki ekki afstöðu til þess sem fram kemur í úrskurði Persónuverndar þar sem ekki var starfrækt kosningaeftirlit af hálfu stofnunarinnar vegna sveitarstjórnarkosninganna 2018.

Jafnframt mun stofnunin ekki fjalla um eða gefa út álit vegna kosninga sem voru ekki undir eftirliti ÖSE.

mbl.is