32 snjóflóð síðustu 10 daga

Tvívegis hefur þurft að loka vegum síðustu daga vegna snjóflóða.
Tvívegis hefur þurft að loka vegum síðustu daga vegna snjóflóða. mbl.is/Styrmir Kári

Tólf snjóflóð hafa fallið á Austfjörðum síðasta sólarhringinn samkvæmt skrá Veðurstofunnar um snjóflóðatilkynningar. Þá hafa 32 snjóflóð fallið á öllu landinu síðustu tíu daga. Fróðárheiði var til að mynda lokuð um tíma í gær eftir að snjóflóð féll á Flateyrarveg og á mánudag féll snjóflóð á þjóðveg­inn um Hval­nes- og Þvott­árskriður skammt frá Djúpa­vogi.

Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðaeftirliti Veðurstofunnar er talsvert nýsnævi til fjalla á landinu eftir éljagang undanfarna viku og hefur snjór safnast í skafla hlémegin í landslagi og víða er bert á milli. Þá geta veik lög verið í og undir nýja snjónum.

Viðvaranir vegna snjóflóðahættu eru í gildi á norðanverðum Vestfjörðum þar sem nokkur hætta er talin á snjóflóðum en töluverð hætta er talin á snjóflóðum á utanverðum Tröllaskaga og á Austfjörðum. Það hlýnar í veðri á morgun með vaxandi suðaustanátt, 13-20 metrum á sekúndu og slyddu eða snjókomu sem síðar breytist í rigningu, en þurrt verður norðaustanlands fram undir kvöld.



Alls hafa 32 tilkynningar um snjóflóð borist Veðurstofunni á síðustu …
Alls hafa 32 tilkynningar um snjóflóð borist Veðurstofunni á síðustu tíu dögum. Flest snjóflóðin hafa fallið á Austurlandi, eða 15 talsins, þar af 10 á síðasta sólarhring. Kort/Veðurstofan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert