Aðstoðuðu á fjórða tug ferðalanga

Björgunarsveitin Ársól kom 32 Íslendingum til bjargar á Fagradal í …
Björgunarsveitin Ársól kom 32 Íslendingum til bjargar á Fagradal í gærkvöldi og nótt. Af Facebook-síðu Ársólar

Björgunarsveitin Ársól á Reyðarfirði stóð í ströngu á Fagradal í gærkvöldi og nótt við að aðstoða fólk. Alls var 32 Íslendingum komið til bjargar á Fagradal en Björn Óskar Einarsson, formaður sveitarinnar, segir að þetta sé þriðji dagurinn í röð sem björgunarsveitin þarf að fara þangað og aðstoða fólk við að komast leiðar sinnar.

Að sögn Björns var björgunarsveitin kölluð út á ellefta tímanum í gærkvöldi og var að störfum til klukkan 2 í nótt. Ekki var búið að loka leiðinni um Fagradal þegar útkallið kom en það var gert að beiðni björgunarsveitarinnar enda leiðin ófær fyrir flesta bíla. 

Björn segir allt of algengt að fólk fari af stað að óathuguðu máli en mikið snjóaði á þessum slóðum í gær. Ekkert vit hafi verið í því fyrir fólk að leggja á Fagradal en svo virðist sem ef ekki er sett stika fyrir um að vegurinn sé lokaður leggi fólk í hann að óathuguðu máli.

Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði kom einnig fólki til bjargar á Fjarðarheiði í gærkvöldi en bæði Fjarðarheiði og Fagridalur voru ófær í nótt.

Færð á vegum

Suðvesturland: Víðast hvar greiðfært en hálkublettir eða hálka á nokkrum vegum.

Vesturland: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja. Þæfingur er á Skógarströnd, í Haukadal og í Heydal. 

Vestfirðir: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum vegum. Þungfært víða á Ströndum.

Norðurland: Víðast hvar hálka eða snjóþekja og eitthvað um éljagang.

Norðausturland: Snjóþekja eða hálka víðast hvar. Þungfært er innansveitar í Vopnafirði og ófært er um Hólasand. 

Austurland: Hálka eða snjóþekja og einhver snjókoma. Þæfingsfærð og skafrenningur eru á Fjarðarheiði og ófært er á Borgarfjarðarvegi norður af Eiðum, á Hróarstunguvegi og Skriðdal. 

Suðausturland: Hálkublettir að mestu.

Suðurland: Þjóðvegur 1 er nokkuð greiðfær en sums staðar er nokkur hálka eða hálkublettir á öðrum vegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert