Frábært veður og stuttar raðir

Frábært veður er á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins, sól og logn, en ekki eru margir á skíðum, segja starfsmenn skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli. 

Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, var að koma af skíðum þegar blaðamaður mbl.is náði í hann og segir hann færið frábært en það sé ekkert launungarmál að snjórinn mætti alveg vera meiri. Allt bendi til þess að úr því rætist í vikunni því spáð er töluverðri snjókomu og því verði væntanlega nóg af snjó í brekkunum næstu daga.

Í Skálafelli er færið gott en heldur hart en þar líkt og í Bláfjöllum er nýbúið að troða. Engar raðir eru við lyfturnar og hvetja starfsmenn skíðasvæðanna fólk til þess að drífa sig á skíði í blíðunni enda stórkostlegt veður að þeirra sögn, heiður himinn og sól.

Í Hlíðarfjalli er nýfallinn snjór og allar brekkur troðnar. Að sögn starfsfólks er veðrið frábært og talsvert af fólki á skíðum. Stromplyftan er biluð en aðrar lyftur opnar. Þrátt fyrir að það hafi snjóað töluvert fyrir norðan er ekki öruggt að skíða utan brauta þar sem grjót stendur upp úr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert