Kusu ekki auðkýfinginn „Sigmund Davíð“

Inga Sæland var gestur Bjartar Ólafsdóttur í Þingvöllum á K100 …
Inga Sæland var gestur Bjartar Ólafsdóttur í Þingvöllum á K100 í morgun. mbl.is/Eggert

Þrátt fyrir dvínandi fylgi Flokks fólksins sér Inga Sæland, formaður flokksins, ekki eftir því að stjórn flokksins hafi ákveðið að reka Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson úr flokknum. 

Þetta og fleira kom fram í viðtali Bjartar Ólafsdóttur við Ingu á Þingvöllum á K100  í morgun. 

Þar ræddu þær Björt m.a. um uppvaxtarár Ingu á Ólafsfirði og aðdragandann að því að hún nam stjórnmálafræði og lögfræði við Háskóla Íslands og stofnaði síðar Flokk fólksins á Salatbarnum í Faxafeni.

„Varist eftirlíkingar“

Síðar barst talið að Klausturmálinu og atburðarásinni sem á eftir fylgdi, sem m.a. leiddi til þess að helmingur þingflokks Flokks fólksins var rekinn úr flokknum. Um það sagði Inga að í vissum skilningi hefði flokkurinn orðið stærri eftir að Karl Gauti og Ólafur voru reknir úr flokknum. Spurð um þær tilgátur að Karl Gauti og Ólafur hafi verið á Klaustri með miðflokksmönnum vegna viðræðna um að þeir myndu færa sig yfir í Miðflokkinn sagði Inga að enginn af þeim fjórtán þúsund kjósendum sem kusu Flokk fólksins hefði kosið „auðkýfinginn Sigmund Davíð“. Þá bætti hún við að hún og aðrir hefðu verið fórnarlömb í þessu máli og að hún væri orðin þreytt á að ræða það.

Þegar Björt spurði Ingu út í þá staðreynd að Flokkur fólksins hefði upp á síðkastið tapað fylgi meðan Sósíalistaflokkurinn bætti við sig svaraði Inga: „Varist eftirlíkingar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina