Talsverðri snjókomu spáð

mbl.is/Kristinn Magnússon

Búast má við talsverðri snjókomu á Hellisheiði í fyrramálið milli 9 og 13 með lélegu skyggni. Einnig má búast við snjókomu á norðvestanverðu landinu og á Austurlandi um tíma eftir hádegi á morgun. Þetta kemur fram í athugasemd á vef Veðurstofunnar.

„Kuldastillan ætlar ekki að staldra lengi við að þessu sinni, því strax á morgun breytist veðrið. Þá má búast við allhvassri suðaustanátt og slyddu eða snjókomu sunnan- og vestanlands, sem síðan færir sig yfir í rigningu á láglendi þegar hlýnar vel upp fyrir frostmark. Á Norður- og Austurlandi verður suðaustanáttin hægari og þar ætti að vera úrkomulaust að mestu. Frostið á þessum slóðum minnkar smám saman á morgun, því það tekur tíma fyrir suðaustanáttina að blása burt kalda loftinu sem í dag sest í allar lægðir í landslaginu,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næsta sólarhring

Breytileg átt 3-8 m/s. Víða þurrt og bjart veður, en dálítil él við norður- og austurströndina og einnig sunnanlands seinnipartinn. Frost 2 til 13 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan. Gengur í suðaustan 13-20 m/s um landið sunnanvert í fyrramálið með snjókomu og slyddu og síðar rigningu og hlýnar í veðri en hægari og úrkomulítið fyrir norðan.

Lægir og styttir að mestu upp sunnanlands síðdegis, en austan 8-15 og snjókoma með köflum um landið norðanvert. Talsverð rigning suðaustantil seint annað kvöld. Hiti 0 til 6 stig sunnanlands síðdegis á morgun en vægt frost fyrir norðan.

Færð á vegum

Suðvesturland: Víðast hvar greiðfært en hálkublettir eru á Mosfellsheiði og Bláfjallavegi og hálka á Kjósarskarði og Krýsuvíkurvegi.

Vesturland: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja. Þæfingur er í Haukadal og á Heydal. 

Vestfirðir: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum vegum. Þungfært á köflum á Ströndum. - Lögregla aðstoðar nú flutningsaðila á Steingrímsfjarðarheiði við að ná upp flutningabíl sem hafði oltið út fyrir veg. Einhverjar tafir kunna að verða á meðan en reynt er að hleypa umferð framhjá í hollum. 

Norðurland: Hringvegurinn er mikið til auður austur í Skagafjörð en hálka er á Öxnadalsheiði og við Eyjafjörð. Meiri hálka er á útvegum.

Norðausturland: Hálka eða snjóþekja víðast hvar. Ófært er um Hólasand. 

Austurland: Hálka eða snjóþekja á flestum aðalleiðum en sumstaðar þungfært eða ófært á sveitavegum. 

Suðausturland: Hálkublettir eða jafnvel alveg autt á hringveginum en hálka á útvegum.

Suðurland: Þjóðvegur 1 er að heita má greiðfær en sumstaðar er nokkur hálka á öðrum vegum.

mbl.is