Ekki búin til að sinna ein vörnum landsins

Samkvæmt skýrslunni eru dæmi um að allt að tíu óþekkt …
Samkvæmt skýrslunni eru dæmi um að allt að tíu óþekkt skip hafi athafnað sig í íslenskri lögsögu án þess að Landhelgisgæslan hefði haft um það vitneskju eða getað athafnað sig vegna þess. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landhelgisgæslan getur hvorki sinnt lögbundnu hlutverki sínu né uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar sínar samkvæmt skýrslu um greiningu á eftirlits- og viðbragðsgetu gæslunnar sem tekin hefur verið fyrir í þjóðaröryggisráði Íslands.

Greint er frá niðurstöðum skýrslunnar í Fréttablaðinu, en Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri hjá aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar, segir að þetta hafi öllum verið ljóst sem það vildu vita.

Samkvæmt skýrslunni eru dæmi um að allt að tíu óþekkt skip hafi athafnað sig í íslenskri lögsögu án þess að Landhelgisgæslan hefði haft um það vitneskju eða getað athafnað sig vegna þess. Gæslan sé ekki mannskap eða tækjum búin til þess að sinna ein vörnum landsins.

Í skýrslunni er kveðið á um lágmarksúrbætur sem gera þarf til þess að gæslan geti sinnt skyldum sínum. Kveðið er á um að flugvélin TF-SIF þurfi að vera á landinu allt árið og að bæta þurfi á hana einni áhöfn og bæta þurfi tveimur þyrluáhöfnum við, svo að tvær þyrlur séu til taks hverju sinni.

Þá segir að uppfæra þurfi varðskipið Ægi eða hefja smíði nýs varðskips svo tryggt sé að tvö skip geti verið á sjó hverju sinni. Einnig þurfi að bæta við skipsáhöfnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert