„Ekki langt þar til tíminn rennur út“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Hari

„Það er erfitt að nefna einhverja ákveðna mínútu hvenær hlutirnir munu skýrast á meðan þetta er í þessu ferli en það er alveg ljóst að það er ekki langt þar til tíminn rennur út,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við mbl.is um stöðuna í yfirstandandi kjaraviðræðum félagsins, Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Grindavíkur, við Samtök atvinnulífsins og hversu lengi viðræðunum verður haldið áfram.

Vilhjálmur sagði við mbl.is 30. janúar að málin þyrftu að verða farin að skýrast í viðræðunum innan 10-16 daga. Að öðrum kosti yrði þeim slitið. Síðan eru liðnir um tólf dagar. Vilhjálmur segir að samtal sé í gangi við stjórnvöld en ljóst sé að aðkoma þeirra að kjaradeilunni skipti gríðarlega miklu máli. Áður en teknar verði einhverjar stórkostlegar ákvarðanir um framhaldið þyrfti að liggja fyrir hver aðkoma þeirra yrði.

Málið snúist fyrst og fremst um að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem höllustum fæti standa sem hægt sé að gera með margvíslegum hætti. „Við erum að kalla hér eftir að ráðstöfunartekjur fólks með lægri millitekjur verði auknar ásamt því að hér verði tekið á fjármálakerfinu, ef svo má að orði komast, þar sem tekið verði á vaxtamálum, verðtryggingu, húsnæðismálum og svo framvegis,“ segir Vilhjálmur.

Þarf að bretta upp ermar

Þetta séu allt atriði sem hafi gríðarlega mikil áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna og því mikilvægt. „En það er alveg ljóst að við munum ekki geta beðið endalaust eftir því og menn reikna nú fastlega með að svona í kringum 18. eða 20. febrúar ætti að vera orðið hægt að vita hvað menn standa. Það er svona það sem verið er að vonast eftir.“

„Það liggur alveg fyrir að stéttarfélögin lögðu fram kröfugerð 11. október þannig að stjórnvöldum er algjörlega búið að vera það ljóst hvert verkalýðshreyfingin stefnir í þeim efnum. Þannig að nú þurfa menn að bretta upp ermar. Þetta er staðan.“

mbl.is