Fékk 18 mánaða dóm fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjaness kvað dóminn upp síðastliðinn föstudag.
Héraðsdómur Reykjaness kvað dóminn upp síðastliðinn föstudag. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi á föstudag karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir nauðgun sem átti sér stað í janúar 2015. Hann var jafnframt dæmdur til þess að greiða brotaþola, sem er fyrrverandi unnusta hans, 1,2 milljónir króna í miskabætur.

Konan kærði nauðgunina nokkrum dögum eftir að hún átti sér stað og lýsti því þá þannig fyrir lögreglu að hún og maðurinn hefðu haft samfarir með beggja vilja á laugardagskvöldi, farið svo út að skemmta sér og síðan komið heim og haft samfarir að nýju. Eftir það hafi konan viljað fara að sofa, en maðurinn „viljað frekari samfarir“ og í kjölfarið nauðgað henni tvisvar þá nóttina.

Ákærði neitaði sök, en brotaþoli var með nokkra áverka á kynfærasvæði samkvæmt skoðun á neyðarmóttöku og hefur „verið sjálfri sér samkvæm um meginatriði málsins“ allt frá því að hún leitaði þangað til skoðunar.

Dómari mat framburð konunnar trúverðugan, en einnig kemur fram í niðurstöðunni að dómara þótti SMS-skeyti sem maðurinn sendi konunni veita ákærunni „verulega stoð“. Þar bauð maðurinn fram sættir, sagðist vona að konan gæti fyrirgefið sér og að hann hefði verið of ákafur við hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert