Ekki kunnugt um neyðarboð úr snjallúri

Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.
Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. Kristinn Magnússon

Ekki eru þekkt tilvik hér á landi þar sem tilkynnt hefur verið um neyð til Neyðarlínu með fallnemabúnaði snjallúrs. Þetta segir Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, en Neyðarlínan er vel meðvituð um að snjallúr sem bjóða upp á möguleika sem þessa sé nú að finna á úlnliðum æ fleiri landsmanna. Hafa neyðarvörðum enda af og til borist símtöl fyrir misgáning þar sem þó var engin neyð í raun.

Á Norðurlöndum hafa komið upp dæmi þess að snjallúr frá Apple hafi komið eigendum sínum til bjargar og látið vita af slysum í tæka tíð. Tómas segir að tæknin á þessu sviði sé á fleygiferð og innan fárra ára verði landslagið orðið gjörbreytt hvað upplýsingagjöf til Neyðarlínu varðar og samskiptaleiðir neyðarvarða og þeirra sem þurfa á hjálp að halda.

Snjallúr sem hringir sjálft í neyðarlínu

Í nýjustu útgáfu snjallúrs Apple sem sett var á markað síðasta haust vinna hug- og vélbúnaður saman þannig úrið nemur ef eigandinn fellur skyndilega til jarðar. Birtist þá á skjánum tilkynning um að úrið hafi numið fall og eigandinn er spurður hvort hann vilji hringja í neyðarlínu. Sé eigandinn hreyfingarlaus og svari ekki innan einnar mínútu hringir úrið sjálft í neyðarlínu og spiluð er upptaka þar sem fram kemur að innhringjandi hafi dottið.

Tæknin er m.a. byggð á prófum sem Apple hefur gert til þess að kanna hvaða handahreyfingar fylgja skyndilegum föllum hjá manneskjum. Ekki er óalgengt að fyrsta viðbragð sé að bera hendurnar fyrir sig við fall fram á við og að sveifla þeim upp og aftur fyrir sig, renni viðkomandi t.d. í hálku.

Hjá eigendum Apple-snjallúrsins sem skrá aldur sinn 65 ára eða hærri virkjast fallneminn sjálfkrafa, en yngra fólk þarf að virkja hann sjálft. Snöggar hreyfingar, t.d. við líkamsrækt, geta í undantekningartilvikum leitt til falsboða í fallnemanum. Það skal tekið fram að ekki er hægt að hringja símtöl úr öllum útgáfum snjallúrsins og í sumum tilfellum krefst það þess að snjallsími sé nærri sem úrið sé tengt við.

Snjallúr reyndist eldri Norðmanni bjargvættur

Í nýlegri frétt á vef NRK er snjallúr frá Apple sagt hafa bjargað lífi Toralv Ostvang, 67 ára gamals Norðmanns, sem féll á baðherbergi á heimili sínu að nóttu til. Neyðarlínu barst símtal úr úri hans, en Toralv var meðvitundarlaus og gat því ekki tjáð sig við neyðarvörð hinum megin á línunni. Brugðið var á það ráð að hafa samband við eiginkonu hans sem var ekki með honum og gaf hún upplýsingar um hvar hann væri að finna. Því næst var sjúkrabíll ræstur út og um hálftíma síðar komu sjúkraflutningamenn að Toralv á baðherbergisgólfinu, meðvitundarlausum og blóðugum. Síðar kom í ljós að hann hafði kjálkabrotnað við fallið.

Snjallúr hafa orðið æ fullkomnari á undanförnum árum og úr …
Snjallúr hafa orðið æ fullkomnari á undanförnum árum og úr sumum þeirra má nú hringja í fólk.

Tómas segir að tæknin í snjallúrunum virki vel hér á landi og fái Neyðarlínan hringingu úr úri sem gefi til kynna að viðkomandi hafi fallið, verði viðbragð sett af stað með vísun í óvísar aðstæður og þá sé líklegast að lögregla sé fengin til að athuga með viðkomandi.

Í tilviki Toralvs Ostvang hafði norska neyðarlínan, í kjölfar skilaboða frá úrinu, samband við eiginkonu og var hún látin vita af því að úr hans hefði gefið frá sér boð um fall. Tómas segir að búast megi við að viðbrögð 112 á Íslandi yrðu sambærileg. Byrja þurfi á að reyna að staðfesta að um neyð sé að ræða og senda síðan viðeigandi hjálp. Í millitíðinni, á meðan rétt hjálp er á leiðinni, sé þó oft notast við alla þá hjálp sem finna megi í nágrenninu. T.a.m. hafi oft verið hringt á næstu bæi til að fá aðstoð, til dæmis við endurlífgun.

Verði að geta gefið upplýsingar um stöðu mála

Tómas segir að til að aðhafast þurfi að liggja fyrir einhverjar upplýsingar um hvað sé á seyði á hinum enda línunnar. Oft geti viðkomandi ekki tjáð sig, en neyðarverðir verði að geta áttað sig á aðstæðum að einhverju marki.

„Viðkomandi verður að öllu jöfnu að geta fylgt símtalinu eftir með tjáskiptum, barið með morskóða, talað eða tjáð sig með öðrum hætti. Við verðum að hafa vísbendingu um að það sé eitthvað á seyði hinum megin,“ segir hann, en Neyðarlínunni berast um 30-50 þúsund símtöl árlega þar sem ekki er um neyð að ræða og hringt er fyrir misgáning. Rakaskemmdir koparkaplar eða koparkaplar sem eru óvarðir af einhverjum sökum, t.d. eftir bruna, eigi sök á yfir 20 þúsund þessara símtala. 

„Það er til app frá okkur þar sem fólk getur skráð sig fyrir fram og ef hringt er úr síma þessara aðila, þá kemur upp tilkynning hjá okkur að viðkomandi sé mögulega að fá heilablóðfall eða eitthvað slíkt og geti þess vegna ekki svarað fyrir sig. Þá verður úr þessu lögreglumál og einhver er sendur á staðinn til að kanna málið. Eins hefur þetta verið notað í tilvikum þar sem viðkomandi hefur verið í einhverri árásarhættu og ekki verið viss um að geta tjáð sig við Neyðarlínu þegar hann hringir eftir hjálp. Þá er það símanúmer sérstaklega merkt og við erum þá ekki tilbúin að taka sénsinn á því að viðkomandi sé að hringja að þarflausu,“ segir Tómas. 

Hann nefnir einnig að Apple hafi nokkuð lengi boðið upp á þann möguleika að skrá sérstaka neyðartengiliði sem geti þá verið einhverjir nákomnir. Í tilviki þar sem snjallúrið frá Apple nemur skyndilegt fall eru sendar upplýsingar til þeirra með smáskilaboðum um það sem hent hefur, auk upplýsinga um staðsetningu þess sem ber úrið.

Er þá mikilvægt að nýta alla slíka möguleika?

„Það er um að gera. Allt sem eykur öryggi fólks er af hinu góða,“ segir Tómas.

Fá staðsetningu senda í 60% tilfella

Tómas segir að tæknin hafi bætt neyðarviðbragð til muna, t.a.m. í tilfelli upplýsinga um staðsetningu innhringjenda.

„Allir sem hafa íslensk sim-kort sem hringja annaðhvort úr Android eða Apple-símum senda nú sjálfkrafa staðsetningu sína þegar þeir hringja. Þegar hringt er í neyðarnúmer, sem er hér á landi 112, 911 í Bandaríkjunum, 999 í Bretlandi o.s.frv., þá sendir síminn sjálfur upplýsingar um staðsetningu. Ef staðsetningarbúnaður er ekki virkur í símanum, þá kveikir síminn á honum þrátt fyrir það,“ segir Tómas.

„Þetta þýðir að nú fáum við staðsetningar u.þ.b. 60% allra símtala til okkar sjálfvirkt. Þá erum við komin með áreiðanlega staðsetningu á u.þ.b. 5-25 sekúndum í stað þess að eyða u.þ.b. 45 sekúndum í að ná því upp úr innhringjanda,“ segir hann, en þau 40% sem út af standa eru símtöl úr gömlum farsímum, landlínusímum og símtöl þeirra sem ekki hafa íslensk sim-kort.

Tækninni fleygir fram í bílaiðnaðnum

Spurður hvernig tæknin hafi að öðru leyti breytt landslaginu hvað Neyðarlínuna varðar nefnir Tómas nýja tækni sem hefur rutt sér til rúms hjá bílaframleiðendum sem nefnist á ensku e-Call.

„Það varð að skyldu 1. apríl 2018 að allir ný-tegundarskoðaðir bílar verði að hafa tiltekinn búnað sem veldur því að þegar loftpúði springur, þ.e.a.s. þegar árekstrarvörn bifreiðar er ræst, eins og það er orðað í reglugerðinni, hringir bíllinn í Neyðarlínu og sendir upplýsingar um staðsetningu. Þar að auki fylgja upplýsingar um stefnu og hraða í aðdragandanum. Við höfum prófað þetta á allmörgum bíltegundum og þetta virðist almennt vera að gera það nokkuð gott,“ segir Tómas.

Ekki hefur enn komið upp mál hér á landi þar sem um raunverulegt bílslys var að ræða og búnaðurinn hefur virkjast. Tómas segir að þó hafi borist símtöl úr bifreiðum fyrir misgáning líkt og úr úrunum.

„Við höfum nokkrum sinnum fengið hringingar inn sem hafa ekki verið prófanir á okkar vegum. Þá svarar oft fálmkennd rödd á línunni sem segir: „Fyrirgefðu, fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að gera þetta!“ Það er nefnilega hægt að ýta á takka og virkja þetta, en þessi símtöl hafa ekki verið mörg,“ segir Tómas. Hann segir að innan fárra ára muni þessi tækni hafa breiðst út og flestir bílar verði búnir búnaði af þessum toga.

Samskipti á samfélagsmiðlum gætu verið framtíðin

Tómas segir að frekari samþætting við samskiptaleiðir fólks í dag séu handan við hornið. Helsta breytingin gæti orðið á sviði samskipta gegnum samfélagsmiðla.

„Í samfélagi heyrnarlausra hefur verið komið á fót því sem heitir 112 Döff og er fyrsta skrefið í því að innleiða samskipti gegnum samfélagsmiðla við Neyðarlínuna. Þá er það undir þeim formerkjum að samskiptin eru í gegnum 112 Döff, en ekki bara einhver samskipti á Facebook. Þetta hefur verið þróað með samfélagi heyrnarlausra í um tvö ár núna og við teljum að þetta sé til mikilla bóta fyrir þau. Hins vegar er svo sem ekkert því til fyrirstöðu að við gefum þetta út fyrir almenning,“ segir Tómas.

Hann segir umskipti hafa orðið í samskiptaleiðum fólks undanfarin ár og að eftir fimmtán ár muni fæstir tala um að þeir gangi með síma.

„Við verðum með það sem við kannski köllum græjuna, sem er þá okkar samskiptatæki. Símar eins og þeir eru í dag, með símanúmer sem skráð eru á einstaklinga, verða ekki þekktir sem slíkir. Hins vegar þurfa menn að geta haft samband við Neyðarlínu og hafa til þess leiðir. Uppkallsleiðirnar verða þá óendanlega fjölbreyttar, en þær munu allar koma inn eftir ljósleiðaranum og þeim mun öllum fylgja staðarákvörðun. Það verður skilyrðið fyrir aðgengi að neyðarviðbragði að upphafspunkturinn sé þekktur,“ segir Tómas.

Snjallúrin fyrsta skrefið í umbyltingu

„Ég held það verði alveg gjörbreytt landslag eftir fimmtán ár. Þá verður það ekki bara úrið sem hringir og sendir staðsetningu, heldur gætum við fengið upplýsingar úr jakka og buxum, upplýsingar um púls, þrýsting, blóðsykur o.s.frv.,“ segir hann.

Eru snjallúrin þá upptaktur að þessari þróun?

„Já, þetta eru einhvers konar fyrstu skref í átt að þessum veruleika. Ég tala nú ekki um ef úrið getur sent okkur myndband af aðstæðum, þá fengjum við enn nánari upplýsingar. Í augnablikinu tökum við ekki á móti því, en það er ekki langt í það. Aftur á móti gæti viðkomandi þá legið á úrinu, þannig að þetta er margslungið,“ segir hann.

„Við fylgjumst alla vega náið með þróuninni,“ segir Tómas og nefnir að Neyðarlínan eigi gott samstarf við símfélög og gagnaveitur hér á landi. Í því sambandi hjálpi smæð íslensks samfélags. „Þetta gengur vel, en við erum auðvitað heldur seinni en maður myndi sjálfur vilja. Við verðum þó líka að fara rólega í sakirnar, því þetta má heldur ekki vera eins og ruslahaugur, öll þessi tækni,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert