Reiknaði með mótframboði

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vermir áfram formannsstólinn næstu tvö …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vermir áfram formannsstólinn næstu tvö árin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér hefði fundist eðlilegt að leggja störf mín og áherslur í dóm félagsmanna,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is en engin mótframboð komu gegn honum áður en framboðsfrestur rann út í dag og er hann því sjálfkjörinn næstu tvö ár.

Ragnar segist telja æskilegt að félagsmenn geti kosið um áherslur og störf forystumanna í verkalýðshreyfingunni líkt og gert hafi verið í VR frá árinu 2009. Hins vegar sé hann mjög þakklátur fyrir að vera treyst til þess að veita VR formennsku áfram.

Spurður hvort hann hafi átt von á mótframboði svarar Ragnar því játandi. „Hins vegar er mikill áhugi á trúnaðarstörfum innan VR, hann hefur aukist mjög mikið. Það var metþátttaka í stjórnarkjörinu í fyrra. Sextán manns sækjast eftir sjö stjórnarsætum í dag.“

Þetta sé mjög jákvæð þróun. Þó ekki fari fram formannskjör að þessu sinni sé engu að síður mikið líf í VR. „Það verður stjórnarkjör í mars og ég vonast auðvitað til þess að ný stjórn verði jafn samheldin og traustur hópur og hefur unnið í stjórninni hingað til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert