Vindar blása úr ýmsum áttum

Kort/Veðurstofa Íslands

Búast má við talsverðri snjókomu á Hellisheiði milli kl. 8 og 13 með lélegu skyggni. Einnig má búast við snjókomu á norðvestanverðu landinu um tíma eftir hádegi og einnig austanlands. Útlit fyrir talsverðan lægðagang næstu daga, hvasst og úrkomusamt með köflum.

„Eftir kaldan og rólegan dag í veðrinu í gær er nú breytinga að vænta með veðraskilum sem nálgast óðfluga. Með morgninum gengur í allhvassa suðaustanátt á Suður- og Vesturlandi með slyddu eða snjókomu sem breytist síðar í rigningu á láglendi þar sem hlýnar vel upp fyrir frostmark.

Á Norður- og Austurlandi verður suðaustanáttin hægari, þar minnkar frostið smám saman og ekki er gert ráð fyrir úrkomu sem talandi er um. 

Þegar skilin hafa gengið yfir síðdegis dregur tímabundið úr vindi og úrkomu. Næsti skilabakki nær inn á sunnanvert landið strax seint í kvöld með auknum vindi og úrkomu. 
Þegar á heildina er litið mun veðrið í vikunni sem nú er að hefjast einkennast af tíðum lægðagangi við landið og yfir það. Það þýðir í grófum dráttum að vindur mun blása af ýmsum áttum og hvasst verður með köflum. Einnig verður úrkomusamt og þar sem hitinn sveiflast um frostmarkið verður úrkoman ýmist snjór eða rigning. Þó ber að taka fram að ekki er búist við standandi stormi alla vikuna. Það munu gefast skaplegir kaflar milli lægða og gæti verið hyggilegt að nýta þá til ferðalaga milli landshluta ef þess er kostur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Færð á vegum 

Suðvesturland: Víðast hvar greiðfært eða hálkublettir en hálka á Hellisheiði, Mosfellsheiði og Kjósarskarði. 

Vesturland: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja. Þæfingur er í Haukadal og á Heydal. 

Vestfirðir: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum vegum. Þungfært eða þæfingur víða á Ströndum en unnið að hreinsun. Einhver skafrenningur er á fjallvegum. 

Norðurland: Hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. 

Norðausturland: Hálka eða snjóþekja víðast hvar og einhver éljagangur. Ófært er um Hólasand. 

Austurland: Hálka eða snjóþekja á flestum aðalleiðum en sums staðar þungfært á útvegum.

Suðausturland: Þar er hálka eða hálkublettir á vegum. 

Suðurland: Hálka eða hálkublettir nokkuð víða en sums staðar jafnvel greiðfært.

Veðurspáin næstu daga

Vaxandi suðaustanátt, 13-18 m/s með morgninum á Suður- og Vesturlandi og snjókoma eða slydda, síðar rigning á láglendi. Hlýnandi veður, hiti 1 til 6 stig eftir hádegi. Hægari vindur og úrkomulítið á Norður- og Austurlandi með minnkandi frosti. 
Lægir um tíma sunnan heiða síðdegis, en bætir aftur í vind og rigningu seint í kvöld og fer að snjóa norðanlands.
Gengur í hvassa suðvestanátt árdegis á morgun með skúrum, en hægari vindur og léttir til austanlands.

Á þriðjudag:

Suðlæg átt 8-15 m/s, en 15-20 norðvestan til á landinu fram eftir degi. Rigning eða slydda um tíma í flestum landshlutum og hiti 1 til 6 stig. Léttir til um landið norðaustanvert síðdegis og frystir þar. 

Á miðvikudag:
Gengur í allhvassa eða hvassa suðaustanátt með rigningu eða slyddu víða um land, en snjókomu í innsveitum fyrir norðan. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst. 

Á fimmtudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt og él, en úrkomulaust austan til á landinu. Hiti um og yfir frostmarki. 

Á föstudag:
Gengur í hvassa norðvestanátt með snjókomu eða slyddu, en rigningu austast á landinu. Hiti kringum frostmark. 

Á laugardag:
Austlæg átt með rigningu eða slyddu á sunnanverðu landinu og hita rétt yfir frostmarki, en þurrt og vægt frost norðan til. 

Á sunnudag:
Snýst í norðaustanátt með snjókomu eða slyddu, en styttir upp sunnanlands. Hiti nálægt frostmarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert