Fá fordæmi fyrir afsögn Snæbjörns

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir fá …
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir fá fordæmi þess að þingmenn hafi sagt af sér vegna framkomu. mbl.is/Styrmir Kári

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segist í samtali við mbl.is ekki muna til þess að nokkur þingmaður hafi sagt af sér í kjölfar ósæmilegrar hegðunar. Hann segir ekki algengt að þingmenn segi af sér, þó eru nokkur dæmi þess.

Snæbjörn Brynjarsson, varaþingmaður Pírata, ákvað í gær að segja af sér varaþingmennsku fyrir Pírata vegna ummæla sem hann lét falla í garð Ernu Ýrar Öldudóttur á Kaffibarnum um helgina. „Ég man ekki eftir dæmi þess að varaþingmaður hafi sagt af sér,“ segir Ólafur.

„Menn hafa sagt sig frá þingmennsku, oftast vegna þess að þeir hafa verið að fara í önnur störf, til að mynda hafa menn hætt af því að þeir hafa orðið sendiherrar. Mjög fáir hafa sagt af sér vegna þess að það hafi verið eitthvað fundið að framkomu þeirra,“ útskýrir prófessorinn.

Bjarni helsta fordæmið

Hann segir helsta dæmi um það að einhver hafi sagt af sér vegna framkomu hafa verið Bjarna Harðarson sem afsalaði sér þingmennsku fyrir Framsóknarflokkinn 2008.

Tók Bjarni þá ákvörðun í kjölfar þess að hann fyrir mistök áframsendi á alla fjölmiðla landsins afrit af tölvupósti tveggja framsóknarmanna þar sem þeir gagnrýndu harðlega varaformann flokksins, Valgerði Sverrisdóttur, fyrir hennar þátt í einkavæðingu bankanna þegar hún var viðskiptaráðherra, ásamt afstöðu Valgerðar til aðildar að Evrópusambandinu.

Ólafur segir það undir alþingismönnum sjálfum komið að ákveða hvort þeir láti af störfum og að fáar ef einhverjar takmarkanir séu á því að þeir taki ákvörðun um að hætta. Þá vísar prófessorinn til Vilmundar Jónssonar, landlæknis og þingmanns Alþýðuflokksins, sem sagði sig frá þingmennsku árið 1941 sem dæmi.

Vegna neyðarréttar er tengdist seinni heimsstyrjöldinni ákvað þingið það ár að framlengja sitt eigið umboð og var kosið tvisvar árið 1942, útskýrir Ólafur. „Vilmundi líkaði þetta illa og sagði af sér þingmennsku.“

Snæbjörn Brynjarsson.
Snæbjörn Brynjarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert