Þeim fjölgar stöðugt sem mæla með Íslandi

Öryggi Íslands sem áfangastaðar og vinsældir eru þær ástæður sem …
Öryggi Íslands sem áfangastaðar og vinsældir eru þær ástæður sem flestir nefna sem jákvæða þætti á áhrif þróunar íslenskrar ferðaþjónustu. Haraldur Jónasson/Hari

Verðlag og gengi eru þau atriði sem erlendir söluaðilar Íslandsferða líta hvað oftast neikvæðum augum. Verðlagið er enn fremur sá þáttur sem oftast var nefndur hjá þeim sem ekki mæltu með Íslandsferðum. Þeim fer þó stöðugt fjölgandi sem mæla með Íslandi sem áfangastað.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðhorfskönnun sem gerð var meðal erlendra söluaðila um íslenska ferðaþjónustu og sem kynnt var á fundi Íslandsstofu um markaðssókn í ferðaþjónustu sem haldin var á Grand hóteli nú síðdegis.

María Björk Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri á sviði Áfangastaðarins hjá Íslandsstofu, kynnti niðurstöður könnunarinnar, sem unnin var í janúar á þessu ári. Um var að ræða netkönnun sem send var á yfir 4.000 tengiliði og bárust svör frá 226 þeirra. „Þetta er ekki hátt svarhlutfall, en í samræmi við fyrri kannanir og samkvæmt því sem við höfum séð eftir á, þá hefur forspárgildið reynst ágætt,“ sagði María.

57% svarenda í könnuninni upplifðu svipaða eða aukna sölu í Íslandsferðum árið 2018 miðað við árið á undan. Þegar spurt var um bókunarstöðu í Íslandsferðum samanborið við árið á undan gera hins vegar hlutfallslega fleiri ráð fyrir verri eða mun verri sölu, eða 43% á móti 25% sem gera ráð fyrir betri eða mun betri sölu.

Þetta segir María mögulega ekki koma á óvart enda hafi aukningin í fjölda ferðamanna ekki verið jafn hröð og undanfarin ár. „Þannig að þetta er svo sem bara í takt við það.“

Bretland sker sig úr í svörum

Er spurt var um væntingar þátttakenda til sölu á Íslandsferðum að vetri til sögðust 64%  gera ráð fyrir svipaðri sölu. Mun minni munur var hins vegar í fjölda þeirra sem gerðu ráð fyrir betri eða verri sölu að vetri til. Þannig gerðu 38% ráð fyrir verri eða mun verri sölu nú, á móti 27% sem gerðu ráð fyrir betri eða mun betri sölu. 

Þegar áætlun um bókunarstöðu var svo skoðuð eftir markaðssvæðum komu Norðurlöndin best út. 73% söluaðila í Norður-Ameríku gera ráð fyrir svipuðum bókunum nú og í fyrra og það gera líka 68%  söluaðila í Mið- og Suður-Evrópu. Í Bretlandi er hlutfallið einungis 40%, en á Norðurlöndunum  gera 92% söluaðila ráð fyrir svipuðum bókunarfjölda.

María bendir þó á að hlutfall svarenda á Norðurlöndum hafi verið lágt og því ef til vill ekki lýsandi fyrir stöðuna. „Bretland sker sig líka úr í öllum svörum og það þarf kannski ekki að koma á óvart,“ segir hún vísar þar til óvissunnar sem Bretar standa frammi fyrir varðandi útgöngu úr Evrópusambandinu.

Ljóst er hins vegar fjölgun ferðamanna er ekki jafn hröð og undanfarin ár og er það í takt við þá þróun sem sést hefur undanfarið. Þegar væntingar um sölu fyrir 2019 í heild er skoðað sést að 71% eiga von á svipaðri eða aukinni sölu en í fyrra og er það 6% minna en í fyrra, bendir engu að síður til þess að staðan sé ágæt.

Gestir á fundi Íslandsstofu um markaðssókn ferðaþjónustunnar á Grand hóteli.
Gestir á fundi Íslandsstofu um markaðssókn ferðaþjónustunnar á Grand hóteli. mbl.is/​Hari

Öryggi og vinsældir áfangastaðarins á toppnum

Þegar síðan eru skoðaðir þeir þættir sem taldir eru hafa jákvæð og neikvæð áhrif á þróun íslenskrar ferðaþjónustu tróna öryggi áfangastaðarins og vinsældir á toppnum, en 15,96% og 15,43% aðspurða nefndu þetta og er það í takt við niðurstöður könnunarinnar í fyrra.

Nokkuð virðist hins vegar fækka í hópi þeirra sem nefna aukið flugframboð og vöxt í íslenskri ferðaþjónustu sem jákvæða þætti, en heldur fjölgar hjá þeim sem nefna aðgengi að þjónustuþáttum frá innlendum þjónustuaðilum og gæði þeirrar þjónustu. Mikilvægi verðlags og gengis eykst þá talsvert milli kannanna  sem mikilvægur liður varðandi bæði jákvæða og neikvæða þætti, en lítið kemur e.t.v. á óvart að þessi þáttur tróni efst á listanum yfir neikvæða þætti.

Þegar meðmælatryggð er svo skoðuð, en þar er þátttakendum skipt í þrjá flokka eftir því hvort að þeir séu líklegri til að hvetja til Íslandsferða, vera hlutlausir eða hallmæla ferð til landsins, sést að meðmælatryggð er há fyrir Ísland. Falla þannig rúm 61% í flokk hvetjenda, 26% er hlutlausir og tæp 13% eru letjendur.

Verðlagið er þá sá þáttur sem flestir þeirra sem letja til Íslandsferða nefna máli sínu til stuðnings, á meðan íslensk náttúra er ofarlega á lista hvetjendanna.

„Meðmælatryggðin er alls staðar há, en hún er þó lægst í Mið- og Suður-Evrópu, en þarna getur verið menningamunur í svörum,“ segir María og segir vísbendingar um að Hollendingar séu t.d. almennt neikvæðari í svörum við svona könnunum. „Það er þó athyglisvert að meðmælatryggð hefur farið hækkandi í öllum okkar könnunum.“

mbl.is