Frestur vegna hreindýraveiða framlengdur

Frestur til þess að sækja um hreindýraveiðileyfi verður framlengdur frá því sem verið hefur vegna dráttar sem orðið hefur á birtingu auglýsingar um hreindýrakvóta þessa árs.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun en ástæðan fyrir drættinum er sögð vera sú að umhverfisráðuneytið sé með til skoðunar mál sem tengist veiðunum og sú athugun taki tíma. Ítarlega verði staðið að kynningu á umsóknarfresti og tímamörkum síðar.

Þá vill Umhverfisstofnun árétta að þótt ekki sé enn hægt að sækja um hreindýraveiðileyfi af þessum ástæðum sé hægt að fara inn á Mínar síður á vefsíðu stofnunarinnar og skila inn veiðiskýrslu og/eða sækja um endurnýjun veiðikorts en með því megi spara tíma áður en opnað verði fyrir umsóknir um veiðileyfi á hreindýrum.

mbl.is