Gáfu stefnuljós of seint

Bílar í umferðinni.
Bílar í umferðinni. mbl.is/Arnþór

Áberandi var hversu seint ökumenn gáfu stefnuljós í könnun sem VÍS gerði nýverið.

Könnuð var stefnuljósanotkun ökumanna sem beygðu af þjóðvegi 1 yfir á Biskupstungnabraut rétt vestan við Selfoss, að því er segir í tilkynningu.

Mikill meirihluti ökumanna gaf stefnuljós eða 93%. Það sem var þó áberandi var hversu seint ökumenn gáfu stefnuljós.

Þegar fylgst var með bílum sem óku í átt að Selfossi og voru að beygja inn á Biskupstungnabrautina gáfu 60% þeirra stefnuljósið of seint, eða um leið og þeir beygðu inn á fráreinina eða eftir að komið var inn á hana.

„Stefnuljósin eru öryggistæki í umferðinni. Hafa þann tilgang að upplýsa ökumenn í kring ef á að breyta stefnu ökutækis. Það er því til lítils að setja stefnuljósið á þegar komið er inn á fráreinina. Það þarf að gera einhverjum metrum áður en komið er að henni,“ segir í tilkynningunni.

„Samkvæmt könnunum Samgöngustofu er skortur á stefnuljósanotkun annarra ökumanna það sem pirrar ökumenn mest í umferðinni. Við hvetjum alla til að líta í eigin barm og skoða hvort hægt sé að bæta stefnuljósanotkunina og draga með því t.d. úr líkum á aftanákeyrslum sem eru næstalgengustu ökutjónin hjá VÍS.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert