Heppilegast að fara í gegnum eigendastefnu

Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins. mbl.is/Eggert

Fari ríkið eftir hefðbundnum leiðum með breytingu á eigendastefnu og með samþykktum á hluthafafundum og virði þar með armslengdarsjónarmið en skipti sér ekki af einstökum þáttum í rekstri banka, eins og varðandi launakjör bankastjóra, þá er það ekki Fjármálaeftirlitsins að skipta sér af. Þetta segir Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, í samtali við mbl.is.

Talsvert hefur verið fjallað um 82% launahækkun bankastjóra Landsbankans síðan laun bankastjórans voru færð undan kjararáði um mitt ár 2017. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur meðal annars sagt að hækkunin sé langt umfram það sem hafi sést á almennum og opinberum vinnumarkaði og að hækkunin sé „al­ger­lega úr takti við stefnu stjórn­valda“. Sagði hún við mbl.is að þessi staða gæti bent til þess að setja þurfi skýrari viðmið inn í starfskjarastefnuna þannig að stjórn bankans og stjórnvöld túlki með sama hætti hvernig fara eigi með kjör æðstu stjórnenda.

Stjórn bankans sendi svo frá sér tilkynningu í gær þar sem kom fram að hækkunin hefði verið í samræmi við starfskjarastefnu bankans sem hlut­haf­ar hafa samþykkt, um að starfs­kjör eigi að vera sam­keppn­is­hæf en þó ekki leiðandi.

„Óheppilegt ef ríkið skipti sér af einstökum þáttum“

Jón Þór segir að því sé um að ræða málefni milli eigenda og stjórnar. „Það er ekki eitthvað sem Fjármáleftirlitið er að horfa til,“ segir hann og bætir við að hluthafar sem séu ósáttir geti farið með óánægjumál fyrir hluthafafund og þannig haft áhrif. Í tilfelli ríkisins er það bankasýslan sem fer með hlut ríkisins í bönkunum.

Landsbankinn.
Landsbankinn. mbl.is/Hjörtur

Spurður hvort FME myndi hins vegar skipta sér af ef ríkið sem eigandi reyndi að hafa bein áhrif á stjórn bankans varðandi einstakar ákvarðanir með launakjör segir Jón Þór að ótímabært sé að telja eitthvað slíkt í gangi. „Það hlýtur að teljast heppilegast að þetta fari í gegnum þann kanal sem eigendastefnan er,“ segir hann. „Það væri óheppilegt ef ríkið skipti sér af einstökum þáttum í rekstri banka.“

Þá tekur Jón Þór einnig fram að ekki sé heldur um að ræða tímabundnar greiðslur eða bónusa, en FME hefur eftirlit með slíkum greiðslum.

mbl.is