Hvalfjarðargöngin lokuð vegna slyss

Hvalfjarðargöng.
Hvalfjarðargöng. mbl.is/Árni Sæberg

Hvalfjarðargöng eru lokuð vegna umferðarslyss. Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi urðu meiðsl á fólki, en tilkynnt var um slysið rétt fyrir klukkan tíu í morgun. 

Að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru sendir sjúkrabílar bæði frá Reykjavík og Akranesi og tveir fluttir á Landspítalann. Ekki liggur fyrir hversu alvarlega þeir eru slasaðir en um tveggja bíla árekstur var að ræða. Dælubíll frá slökkviliðinu og björgunarsveitarfólk af Kjalarnesi er að störfum á vettvangi en töluvert brak er úr ökutækjunum sem og hefur olía lekið úr þeim. 

Einnig er Suðurlandsvegur um Sandskeið, Hellisheiði og Þrengsli lokaður en mjög hvasst er þar. 

Snjóflóð hefur fallið á veginn um Kambanesskriður og er hann því lokaður, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Kröpp lægð fer í dag norður um vestanvert landið. Varað er við sviptingum í vindi ásamt snjó og krapa frá um kl. 11. Einkum á Snæfellsnesi, sunnanverðum Vestfjörðum, Bröttubrekku, Holtavörðuheiði og norður í land frá um kl. 11 og þar til síðdegis. 

Suðvesturland: Víða eru vegir greiðfærir. Flughálka er á Kjósarskarði, á Grafningsvegi og Vatnsleysuvegi.

Vesturland: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum og eitthvað um éljagang. Flughálka er víða í uppsveitum Borgafjarðar. Á Snæfellsnesi er flughálka milli Fróðárheiðar og Vatnaleiðar annars hálka eða snjóþekja og snjókoma.

Vestfirðir: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum vegum og víða éljagangur eða snjókoma. Þungfært er á Klettshálsi. Þæfingsfærð og stórhríð er í Súgandafirði.  

Norðurland: Hálka eða snjóþekja og snjókoma eða éljagangur á flestum leiðum. Flughálka er frá Hofsósi að Ketilási.

Norðausturland: Snjóþekja eða hálka og snjókoma og skafrenningur á felsum leiðum. Þæfingsfærð er á Mývatnsöræfum, Hófaskarði og Hálsum. Flughálka er á Breknaheiði og í Vopnafirði.

Austurland: Hálka eða hálkublettir á vegum. Snjóþekja og snjókoma er á Fjarðarheiði. Flughálka er á milli Fáskrúðsfjarðar og Djúpavogs.

Suðausturland: Hálka eða hálkublettir á vegum. Flughálka er á milli Jökulsárlóns og Kvískers.

Suðurland: Suðurlandsvegur er að mestu greiðfær en hálkublettir á öðrum leiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert