Kvörtuðu vegna ástands læknis

Heilbrigðisstofnun Suðurlands er ekki heimilt að meina starfsfólki aðgengi að …
Heilbrigðisstofnun Suðurlands er ekki heimilt að meina starfsfólki aðgengi að tilkynningum um hugsanleg brot þeirra í starfi. mbl.is/RAX

Heilbrigðisstofnun Suðurlands var óheimilt að meina lækni um aðgang að tilkynningum og þar af leiðandi nöfnum tveggja einstaklinga sem höfðu sakað lækninn um að hafa „ekki virst allsgáður“ og í „annarlegu ástandi“ þegar hann sinnti útkalli 30. maí 2015, að því er segir í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafði neitað að afhenda lækninum gögn sem innihéldu nöfn einstaklinganna sem kvörtuðu undan ástandi hans, meðal annars vegna þess að stofnunin taldi nauðsynlegt að einstaklingum sé kleift að upplýsa um brot heilbrigðisstarfsmanna í starfi án þess að sá grunaði verði upplýstur um nöfn þeirra.

Mikilvægi nafnleyndar eru ekki nægileg rök til þess að meina þeim grunaða aðgang að tilkynningum um hugsanleg brot hans, að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Nefndin segir upplýsingalög ekki heimila að aðgengi að gögnum verði takmarkað á grundvelli þeirra hagsmuna sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur tilgreint.

„Úrskurðarnefnd hefur farið yfir þær tilkynningar sem deilt er um í málinu. Þar er ekki að finna neinar upplýsingar sem talist geta varðað einka- eða fjárhagsmálefni viðkomandi einstaklinga. Af þeirri ástæðu standa ekki rök til að synja kæranda um aðgang að umbeðnum tilkynningum, og skal því veita honum aðgang að þeim í heild sinni,“ segir í niðurstöðum nefndarinnar.

RÚV sagði fyrst frá málinu.

mbl.is