Lægðin hefur áhrif á ferðir Strætó

Auglýsingaskiltið í skýlinu við Sægarða varð illa úti í lægðinni.
Auglýsingaskiltið í skýlinu við Sægarða varð illa úti í lægðinni. Ljósmynd/Aðsend

Lægðin sem nú gengur yfir landið hefur áhrif á ferðir vagna Strætó. Fram kemur í frétt frá fyrirtækinu að Leið 57 (Reykjavík-Akureyri) geti aðeins ekið að Bifröst á leið sinni norður til Akureyrar. Ferðirnar frá Akureyri og suður til Reykjavíkur falla hins vegar niður í dag.

Þá hefur veðrið einnig áhrif á Leið 51 (Reykjavík-Höfn), en eins og staðan er núna geta vagnarnir ekki ekið um Hellisheiði og Sandskeið. Ferðir frá Selfossi í átt að Reykjavík geta því aðeins ekið til Hveragerðis.

Óvíst er svo með næstu ferðir á Leið 52 (Reykjavík-Landeyjarhöfn). 

Strætó bendir á að svo virðist sem veðrið sé einnig að valda usla á höfuðborgarsvæðinu og þannig töfðu þakplötur, sem höfðu fokið á götuna við Melaskóla, ferð leiðar 11. Þá sendi farþegi Strætó mynd af biðstöðinni við Sæbraut/Sægarða sem sýnir hvernig auglýsingaskilti í skýlinu hefur skemmst í vindinum.

Strætó hvetur þá alla farþega á landsbyggðinni til að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu Strætó eða á Twitter-síðu Strætó, en stjórnstöð Strætó mun fylgjast með veðri og meta stöðu hverrar áætlaðrar ferðar fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert