Lægðir af öllum stærðum og gerðum

Kort/Veðurstofa Íslands

Nokkuð kröpp lægð fer í dag frá Faxaflóa til norðausturs yfir á Húnaflóa. Í kvöld og nótt dregur úr vindi á öllu landinu en næsta lægð rennir sér norður eftir í fyrramálið. Næstu daga má sjá fleiri lægðir í kortunum, þær eru misdjúpar en eiga það sameiginlegt að geta breyst frá núverandi spám.

Í dag gengur nokkuð kröpp lægð frá Faxaflóa til norðausturs yfir á Húnaflóa. Lægðabrautin hefur verið mikið á reiki í spám síðasta sólahring en miðað við staðsetningu lægðarinnar núna, er líklegasta útkoman að í dag veðri allhvöss suðvestanátt á vestanverðu landinu með skúrum eða éljum en sunnanhvassviðri eða -stormur víða á Norðurlandi frá Húnaflóa austur í Skagafjörð.  

Í kvöld og nótt dregur úr vindi á öllu landinu en næsta lægð rennir sér norður eftir í fyrramálið og ber rigningu eða slyddu með sér inn á suðaustanvert landið og á Austfirði, en svalara veður og norðanátt yfir landið vestanvert. 

Næstu daga má sjá fleiri lægðir í kortunum, þær eru misdjúpar en eiga það sameiginlegt að geta breyst frá núverandi spám, og því mikilvægt nú sem áður að fylgjast vel með veðurspám og ekki síst veðurathugunum, sérstaklega ef fólk ætlar að ferðast á milli landshluta,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austlæg átt víða 8-15 m/s og rigning en slydda með köflum. Snýst í suðvestan 10-18 m/s með morgninum en jafnvel stormur á Norðurlandi um og eftir hádegi. Skúrir eða él suðvestan til en rofar til um norðan og austanvert landið. Hiti 2 til 7 stig í dag. 
Mun hægari vindur og úrkomulítið í kvöld og nótt og kólnar aftur en austanátt og rigning eða slydda sunnan og austan til í fyrramálið og hlánar þar en norðlæg átt, úrkomulítið og hiti um frostmark vestan til.

Á miðvikudag:

Austlæg og síðar breytileg átt, 8-15 m/s, en vestlægari um kvöldið. Rigning eða slydda með köflum sunnan- og austanlands og hiti 0 til 5 stig, en annars dálítil snjókoma eða él og vægt frost. 

Á fimmtudag:
Breytileg og síðar austlæg átt, 3-10 m/s. Skýjað og sums staðar él, en þykknar upp með snjókomu eða slyddu um landið SA-vert um kvöldið. Frost 0 til 6 stig. 

Á föstudag:
Norðvestan- og vestanátt, sums staðar allhvöss eða hvöss. Víða snjókoma, mest á Norðurlandi, en líkur á slyddu eða rigning við A-ströndina. Hiti um frostmark við ströndina, en annars vægt frost. 

Á laugardag:
Gengur í hvassa austanátt með snjókomu, en slyddu eða rigningu sunnan og suðaustanlands um kvöldið. Hlýnar lítið eitt, einkum suðaustanlands. 

Á sunnudag:
Austan- og norðaustanátt. Snjókoma fyrir norðan, rigning eða slydda á SA- og A-landi, en lengst af þurrt annars. Hiti um frostmark, en vægt frost til landsins. 

Á mánudag:
Útlit fyrir norðlæga átt. Él um landið N-vert, en annars úrkomulítið. Hiti breytist lítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert