Segir gögn vekja grun um glæpastarfsemi

Aðspurð hvort þetta sé ekki alvarleg fullyrðing til þess að …
Aðspurð hvort þetta sé ekki alvarleg fullyrðing til þess að setja fram þegar engar sannanir liggi fyrir segist Unnur aðeins hafa verið að tjá sig um það sem hún hafi á borðinu hjá sér. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forstjóri Vinnumálastofnunar, Unnur Sverrisdóttir, segir stofnunina hafa undir höndum gögn sem veki grun um að stunduð sé glæpastarfsemi hjá fyrirtækinu Menn í vinnu ehf.

Unnur fullyrti í kvöldfréttum RÚV á laugardag að um glæpastarfsemi væri að ræða, þrátt fyrir að stofnunin hefði haft fyrirtækið í gjörgæslu frá því fjallað var um það í Kveik í haust og að allt hafi verið eðlilegt og litið vel út.

„Þegar ég sé svona aðbúnað eins og þarna er, þá er það reynsla okkar að það séu fleiri pottar brotnir. Það er það sem ég hef fyrir mér í þessu, og líka ákveðin gögn sem við höfum undir höndum og vekja grun,“ segir Unnur í samtali við mbl.is.

Aðspurð hvort þetta sé ekki alvarleg fullyrðing til þess að setja fram þegar lítið sé um haldbærar sannanir segist Unnur aðeins hafa verið að tjá sig um það sem hún hafi á borðinu hjá sér.

Mál rúmenskra verkamanna hjá Mönnum í vinnu, sem grunur leikur á að séu í nauðungarvinnu, rataði í fjölmiðla í síðustu viku. Fjöldi fólks hefur fordæmt meðferðina á starfsmönnunum, svo sem forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar og félagsmálaráðherra, en athygli hefur vakið að gagnvart eftirlitsaðilum virðist allt vera eftir bókinni hjá fyrirtækinu, sem kveðst hafa hreinan skjöld.

Mál starfsmannaleigunnar er til skoðunar hjá eftirlitsaðilum og segir Unnur að mennirnir sem um ræðir séu komnir í öruggt húsnæði og að Vinnumálastofnun muni í vikunni aðstoða þá við að finna sér nýja vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert