Stjörnuvitlaust er flutningabíllinn fór út af

Varla var stætt á Hellisheiðinni er flutningabíllinn fór út af. …
Varla var stætt á Hellisheiðinni er flutningabíllinn fór út af. Mynd úr safni. mbl.is/Helgi Bjarnason

Varla var stætt á Hellisheiðinni er stór vöruflutningabíll fór út af veginum og lagðist á hliðina rétt fyrir neðan Bolaöldu, í nágrenni Litlu kaffistofunnar, í morgun. Hellisheiði og Þrengslum var lokað um tíma vegna veðurs, en búið er að opna vegina á ný.

Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu var veðrið „stjörnuvitlaust“. „Þarna í morgun varð allt í einu snarvitlaust veður og annaðhvort fýkur hann út af eða gerist eitthvað,“ segir hann og kveður bílinn hafa endað á hliðinni.

Er slökkviliðið kom á staðinn var vart stætt á veginum og því erfitt að athafna sig. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild Landspítalans, en meiðsl hans eru þó ekki talin alvarleg.

Flutningabíllinn liggur enn á hliðinni, en verið er að vinna í að koma honum aftur upp á dekkin. Fulltrúi frá Heilbrigðiseftirlitinu er á staðnum þar sem atvikið átti sér stað á ytri mörkum vatnsverndarsvæðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert