Varað við stormi á Norðurlandi

Veðurstofan segir útlit fyrir sunnan- og suðvestanstorm á Norðurlandi fram á kvöld. Búast megi við hvössum vindstrengjum við fjöll, yfir 30 metrum á sekúndu. Varhugaverðar aðstæður geti því myndast á þeim slóðum, einkum þar sem hálka er á vegum.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn gera annars ráð fyrir bjartviðri að mestu norðaustan- og austanlands. Dálitlar skúrir verði í öðrum landshlutum, en síðar él og kólnandi veður. Veðrið lægi síðan í kvöld og nótt.

Breytileg átt, 5-10 m/s, verður í fyrramálið, en norðlæg átt 8-15 m/s síðdegis og sums staðar dálítil él. Talsverð slydda eða rigning verður um landið suðaustanvert eftir hádegi, en snjókoma norðaustan til undir kvöld.

Vestlægari átt verður seint annað kvöld og styttir að mestu upp fyrir austan. Frost verður á bilinu 0 til 5 stig, en hiti 0 til 5 stig við suður- og suðausturströndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert