Úrvinnsla gervitunglamynda hjá LHG ný

Sjöttu þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar verður bætt við í ár.
Sjöttu þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar verður bætt við í ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki var um einsdæmi að ræða þegar Landhelgisgæslan varð vör við tíu ókunn endurvörp, sem líklega voru skip, á gervitunglamynd í október síðastliðnum, en samkvæmt upplýsingum frá gæslunni kemur fyrir að vart verði við slíkt á gervitunglamyndum. Ekki er ólíklegt að um erlend her- eða rannsóknarskip sé að ræða.

Tilvikin eru bókuð í málaskrárkerfi Landhelgisgæslunnar, en úrvinnsla gervitunglamynda mun vera nokkuð ný hjá Landhelgisgæslunni og þróun á starfsaðferðum og verklagi stendur enn yfir.

Af þeim sökum var ekki hægt að útvega nákvæmar tölfræðiupplýsingar um fjölda tilvika líkt og mbl.is óskaði eftir.

Flygildi og fleiri þyrluáhafnir

Samkvæmt svari Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, hafa stjórnvöld þegar brugðist við vangetu Landhelgisgæslunnar til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu. Á fimm ára fjármálaáætlun sé til dæmis gert ráð fyrir aukinni viðveru flugvélar gæslunnar með auknu rekstrarfé. Þá fjölgaði úthaldsdögum varðskipa árið 2018 samanborið við 2017, auk þess sem sjöttu þyrluáhöfninni verður bætt við á árinu, sem eykur viðbragðsgetu Landhelgisgæslunnar mikið á hafinu umhverfis landið.

Sömuleiðis megi nefna að í apríl hefjist tilraunaverkefni með flygildi (e. drones) í samstarfi við siglingaöryggisstofnun Evrópu þar sem ómönnuð loftför verða prófuð til eftirlits á hafinu umhverfis landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert