92% kvenna í orkugeiranum ánægðar í starfi

Mikill meirihluti kvenna í orku- og veitugeiranum segist upplifa hvatningu …
Mikill meirihluti kvenna í orku- og veitugeiranum segist upplifa hvatningu til að leggja sig fram í starfi og að tækifæri til faglegrar og persónulegrar þróunar séu mikil. mbl.is/RAX

Mikill meirihluti kvenna í orkugeiranum er mjög ánægður í starfi og líður vel í vinnunni, eða 92%, samkvæmt niðurstöðum fyrstu könnunar á Íslandi um líðan kvenna í orkugeiranum sem félagið Konur í orkumálum (KíO) lét nýverið gera. Í könnuninni kemur einnig fram að samt sem áður séu þættir sem huga þarf að til að ná enn betri árangri.

Alls höfðu um 10% svarenda fengið óþægilegar kynferðislegar athugasemdir á síðustu 12 mánuðum í starfi og var það algengast meðal kvenna á aldrinum 18-34 ára. „Áreitni er eitthvað sem við viljum ekki sjá í okkar starfsemi, óháð því hvort hlutfallið mælist svipað í öðrum atvinnugeirum en verður eitt af aðaláhersluefnum okkar í starfinu nú þegar við höfum fengið niðurstöður könnunarinnar, þ.e. að koma þessum tölum niður í núll,“ er haft eftir Hörpu Þórunni Pétursdóttur, formanni KíO, tilkynningu.

Konur eldri en 55 ára óánægðastar í starfi

Ánægja í starfi mælist mismikil eftir aldurshópum og eru konur eldri en 55 ára og þær sem hafa starfað lengst, óánægðastar. Sá aldurshópur taldi sig einnig oftar hafa orðið fyrir því að faglegt álit þeirra væri hundsað eða gengið væri fram hjá þeim við útdeilingu verkefna.

Svarendur nefna jöfnun launa, fjölgun kvenna í stjórnendastöðum og jafnara kynjahlutfall innan orku- og veitustarfsemi sem dæmi um jákvæða þróun innan fyrirtækjanna og telja að hægt sé að gera enn betur í þeim málum, til dæmis með því að viðhalda umræðu um jafnrétti kynjanna.

Tilgangurinn með könnuninni var að draga fram hvernig félagskonur í KíO upplifa starfsumhverfi sitt t.d. hvort þær upplifi hvatningu í starfi og jöfn tækifæri en einnig hvort þær hafi orðið fyrir misrétti eða neikvæðum upplifunum í starfi sínu í orkugeiranum. 

Könnunin var framkvæmd af Zenter og stóð yfir í einn mánuð í október og nóvember í fyrra. Úrtakið var 267 konur og svarhlutfall 65%.

Konur í orkumálum er félag kvenna í orkugeiranum og eru félagskonur og -menn úr aðildarfélögum Samorku en einnig öðrum fyrirtækjum og stofnunum svo sem háskólaumhverfinu, rannsóknarstofnunum og ráðgjafastofum af ýmsum toga.

mbl.is