Krefjast íbúakosninga um kísilver

2.740 íbúar í Reykjanesbæ krefjast þess að íbúakosningar verði haldnar …
2.740 íbúar í Reykjanesbæ krefjast þess að íbúakosningar verði haldnar um starfsemi kísilvera í Helguvík. mbl.is/Árni Sæberg

Andstæðingar stóriðju í Helguvík skiluðu í gær um 2.740 undirskriftum íbúa í Reykjanesbæ til formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar, en íbúarnir krefjast íbúakosninga í sveitarfélaginu um starfsemi kísilvera í Helguvík.

„Við undirritaðir íbúar í Reykjanesbæ förum fram á það við bæjarstjórn Reykjanesbæjar að haldin verði bindandi íbúakosning um það hvort íbúar vilji eða vilji ekki kísilver Stakksbergs ehf. eða Thorsil ehf. í Helguvík og þar með hafni þeir beiðni Stakksbergs e[hf]. um beiðni á breytingu deiliskipulags í Helguvík,“ sagði í yfirskrift undirskriftalistans, að sögn Einars Más Atlasonar, formanns íbúasamtakanna, en listar hafa legið frammi í Reykjanesbæ um nokkurt skeið.

Einar Már segir í samtali við mbl.is að um 400 undirskriftum fólks úr öðrum sveitarfélögum hafi einnig verið skilað inn, til viðbótar við þær 2.740 undirskriftir sem komu frá íbúum í Reykjanesbæ. Hann segir að um 200 þeirra undirskrifta séu frá fólki sem búi í Reykjanesbæ, en hafi ekki enn flutt lögheimili sitt þangað þegar listinn var borinn saman við þjóðskrá.

Hann segist vona að bæjarstjórn Reykjanesbæjar standi við þau skilaboð sem hafa áður komið frá bæjarstjórninni, um að íbúum verði gefinn kostur á að tjá sig um framtíð Helguvíkur.

Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar sagði í samtali við RÚV fyrr í dag að ef að listinn reynist löglegur muni íbúakosning fara fram, enda séu yfir 20% íbúa í Reykjanesbæ á listanum. Hann sagði einnig að hann teldi að fullyrðingar Stakksbergs ehf., um að íbúakosning væri ólögmæt og gæti skapað Reykjanesbæ bótaskyldu, þar sem fyrirtækið hafi öll tilskilin leyfi til þess að halda áfram starfsemi, standist ekki.

Friðjón sagði sömuleiðis að ekki væri tímabært að segja til um nákvæmlega hvernig spurningin muni hljóma, en Einar segir í samtali við mbl.is að Andstæðingar stóriðju í Helguvík vilji hafa aðkomu að þeirri ákvörðun, svo að spurningin verði skýr og valdi ekki misskilningi hjá fólki.

mbl.is