Aðalmeðferð í máli hjóna hófst í dag

Konan kemur í dómsal við upphaf aðalmerðferðar í Héraðsdómi Suðurnesja.
Konan kemur í dómsal við upphaf aðalmerðferðar í Héraðsdómi Suðurnesja. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðalmeðferð í máli hjóna sem grunuð eru um gróf kynferðisbrot gegn dóttur sinni og stjúpdóttur hófst í morgun í Héraðsdómi Reykjaness. Skýrslutaka yfir hjónunum fer fram í dag auk þess sem sex vitni koma fyrir dóminn.

Kolbrún Benediktsdóttir, aðstoðarhéraðssaksóknari og saksóknari í málinu, staðfesti að aðalmeðferðin muni ekki klárast í dag, en tekin verður skýrsla af þremur vitnum síðar. Ekki er enn ljóst hvenær það verður gert, en ljóst er að það verður ekki á morgun.

Hjónin komu til héraðsdóms í fylgd nokkurra lögreglumanna í morgun, en þau hafa undanfarið verið í varðhaldi. Maðurinn hefur verið í varðhaldi frá því málið kom upp í júlí, en konan var á sama tíma hneppt í tveggja vikna varðhald og sleppt að því loknu. Í október var ákæra gefin út á hendur fólkinu og var þá konan aftur hneppt í varðhald, en héraðssaksóknari taldi að ef brot hennar væru jafn alvarleg og henni væru gef­in að sök myndi það valda hneyksl­un og særa rétt­ar­vit­und al­menn­ings gengi hún laus.

Við þingfestingu málsins í október játuðu hjónin brot sín að hluta, en sem fyrr segir eru þau ákærð fyrir gróf kynferðisbrot gegn dóttur sinni og stjúpdóttur. Í ákæru málsins kemur jafnframt fram að þau hafi framið brotin meðan önnur dóttir horfði á. Þá eru þau jafnframt ákærð fyrir að hafa tekið upp brot sín gegn stúlkunni.

Auk þess er ákært fyrir vopnalagabrot og varðveislu efnis sem sýnir börn á kynferðislegan hátt, en samtals var um að ræða 807 ljósmyndir og 29 myndskeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert