Árekstrar, ölvun, rán og hálkuslys

55 verkefni komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðdegis …
55 verkefni komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðdegis og í kvöld. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti 55 verkefnum síðdegis og í kvöld, sem er ívið meira en gengur og gerist á venjulegu kvöldi. Í dagbók lögreglu segir að meðal helstu verkefna voru minni háttar árekstrar, aðstoð vegna ölvunar, bifreiðastöður, fallslys vegna hálku og fleiri mál sem snúa að aðstoð við almenning.

Rétt fyrir klukkan 18 voru tveir handteknir á Hringbraut í Vesturbæ Reykjavíkur en þeir reyndust vera á stolnu ökutæki. Jafnframt reyndust þeir vera undir áhrifum lyfja og fíkniefna. Þeir bíða þess að verða hæfir til skýrslutöku.

Á sama tíma var tilkynnt um rán í Breiðholti þegar kona reyndi að stela myndavél af manni eftir að honum hafði verið ógnað með dúkahnífi. Kon­an var hand­tek­in á staðnum og vistuð í fanga­geymslu lög­reglu.

Laust fyrir klukkan hálfátta var einn handtekinn í Hafnarfirði vegna gruns um ölvun við akstur. Á tíunda tímanum barst lögreglu tilkynning um ljóslausa bifreið akandi á Vesturlandsvegi á leið til Reykjavíkur. Í dagbók lögreglu kemur fram að litlu mátti muna að bifreið hafi verið ekið aftan á ljóslausu bifreiðina þar sem hún sást varla í myrkrinu. Lögreglan vill því enn og aftur vekja athygli ökumanna á því að tryggja að ökuljós logi við akstur svo sýnileiki ökutækja sé sem bestur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert