Eitt leiðarkerfi fyrir allt landið

Sigurður Ingi kynnti heildarstefnuna í Perlunni í morgun.
Sigurður Ingi kynnti heildarstefnuna í Perlunni í morgun. Ljósmynd/Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Grunnur að fyrstu heildarstefnu ríkisins um almenningssamgöngur fyrir allt landið hefur verið mótaður og er nú til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Starfshópur sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði leggur til að almenningssamgöngur með flugi, ferjum og almenningsvögnum myndi eina sterka heild og að boðið verði upp á eitt leiðarkerfi fyrir allt landið.

Markmiðið er að auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum milli byggða á Íslandi og stuðla þannig að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um allt land.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir stefnuna rökrétt framhald af nýrri samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt.

Í nýju stefnumótuninni er miðað við að þróa eitt samtengt leiðarkerfi á landi, láði og legi. Skilgreindar eru fimm stærri skiptistöðvar á landinu þar sem huga þarf að því að skipuleggja samgöngumiðstöðvar. Þær eru á höfuðborgarsvæðinu, Borgarnesi, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Sjö minni skiptistöðvar yrðu einnig í kerfinu fyrir afmarkaðri svæði.

Stefnt er að því að allar upplýsingar um áfangastaði og tímasetningar í leiðarkerfi almenningssamgangna verði á einni sameiginlegri upplýsingagátt. Á þeim vef verði hægt að fá ferðatillögur í rauntíma, sem tengir saman mismunandi leiðir og ferðamáta og bjóði upp á kaup á farmiðum alla leið.

Í skýrslunni er fjallað um að sett verði samræmd viðmið um þjónustustig almenningssamgangna um land allt. Fjárveitingar taki mið af þjónustustigi hverrar leiðar til að tryggja gagnsæi og treysta rekstrargrundvöll.

Fargjöld verði lækkuð

Þá er lagt til að fargjöld í almenningssamgöngum verði lækkuð og þjónustan gerð aðgengilegri almenningi. Í nýrri samþykktri samgönguáætlun er gert ráð fyrir að fargjöld í innanlandsflugi verði lækkuð í þessu skyni.

Loks telur starfshópurinn mikilvægt að fjárfest verði í innviðum almenningssamgangna, hvort tveggja með uppbyggingu samgöngumiðstöðva á stórum skiptistöðvum og hefðbundnum biðskýlum víða um land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert