Lýsa áhyggjum og óöryggi

Daníel Arnarsson er framkvæmdastjóri Samtakanna '78.
Daníel Arnarsson er framkvæmdastjóri Samtakanna '78. Ljósmynd/Samtökin '78

Samtökin ´78 mótmæla stjórnarfrumvarpi dómsmálaráðherra þar sem hatursorðræða er þrengd en frumvarpið er sagt eiga að auka vernd tjáningarfrelsis hér á landi.

„Ofbeldi gegn minnihlutahópum verður ekki til í tómarúmi. Það er vel þekkt staðreynd að hatursorðræða er undanfari ofbeldis, en ofbeldi og ofsóknir gagnvart minnihlutahópum hafa ítrekað verið settar í beint samhengi við hatursorðræðu,“ kemur fram í yfirlýsingu samtakanna.

Enn fremur segir að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi bent á að umburðarlyndi og virðing fyrir jafnrétti og mannlegri reisn séu grundvöllur opinna lýðræðissamfélaga. Þess vegna geti ekki aðeins verið réttlætanlegt, heldur nauðsynlegt að takmarka orðræðu sem dreifir eða hvetur til haturs byggðu á umburðarleysi. Í ljósi þessa hefur verið samstaða um að tjáningarfrelsinu þurfi að setja skorður til þess að vernda frelsi minnihlutahópa.

Núverandi ákvæði um hatursorðræðu (233. gr. a almennra hegningarlaga) er svo hljóðandi: Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Nú liggi fyrir stjórnarfrumvarp dómsmálaráðherra þar sem eftirfarandi klausu er bætt aftan við ákveði um hatursorðræðu: enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.

Tveir sakfelldir í Hæstarétti í fyrra

Samtökin ´78 kærðu hatursorðræðu í tengslum við hinsegin fræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar árið 2015. Í fyrra féllu tveir dómar í Hæstarétti þar sem einstaklingar voru sakfelldir fyrir hatursorðræðu gegn hinsegin fólki. 

„Þau ummæli sem sakfellt var fyrir voru mjög gróf, lýstu hatri á hinsegin fólki og bendluðu það, í öðru tilfellinu, við barnaníð. Slík tjáning grefur ekki aðeins undan friðhelgi einkalífs þeirra sem slík orðræða beinist gegn, heldur rænir þau einnig öryggistilfinningu,“ kemur fram í yfirlýsingunni. 

Í greinargerð frumvarpsins segir að með því sé meðal annars brugðist við tveimur dómum Hæstaréttar Íslands frá árinu 2017 þar sem sakfellt var fyrir brot gegn ákvæðinu. 

„Einnig er tekið fram að þrengja eigi ákvæðið þrátt fyrir að núverandi lög um hatursorðræðu stangist ekki á við tjáningarfrelsisákvæði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og þrátt fyrir að þetta frumvarp muni minnka refsivernd minnihlutahópa gagnvart hatursorðræðu. Í kjölfar frétta af frumvarpinu hefur fjöldi félagsmanna sett sig í samband við Samtökin ‘78 og viðrað áhyggjur sínar og óöryggi vegna fyrirhugaðra breytinga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina