Hæglætisveður og él víða um land

Veðurútlit á hádegi í dag, föstudag.
Veðurútlit á hádegi í dag, föstudag.

Hægir vindar verða á landinu framan af degi, en vestankaldi á Norður- og Austurlandi síðdegis. Él verða víða um land, en bjartviðri norðaustan til. Frost verður á bilinu 0-12 stig, kaldast í innsveitum norðanlands.

Á morgun fer vindur vaxandi að austan og þykknar upp. Um kvöldið er komið hvassviðri, 15-23 m/s, jafnvel stormur syðst á landinu. Dálítil snjókoma eða slydda fyrir sunnan og austan og rigning við ströndina, en hægari vindur norðvestanlands og úrkomulaust lengst af. Það hlýnar heldur í veðri á morgun og hlánar sunnan og austan til síðdegis.

Á sunnudag snýst síðan í hvassa norðaustanátt með snjókomu eða éljagangi og kólnandi veðri.

Veður á mbl.is

Færð á vegum

Éljað hefur á vestan- og suðvestanverðu landinu í nótt og er því mikið um snjóþekju. Mokstur er þó víðast hvar hafinn að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Suðurland: Snjóþekja eða hálka á flestum leiðum. Þæfingsfærð er efst á Skeiðavegi ofan Flúða en mokstur stendur yfir

Suðausturland: Hálka eða snjóþekja víðast hvar, en mokstur stendur yfir

Austurland: Hálka eða hálkublettir víðast hvar.

Norðausturland: Hálka er á flestum leiðum.

Norðurland: Hálkublettir eða hálka eru á flestum leiðum.

Vestfirðir: Hálka eða hálkublettir víðast hvar og eitthvað um éljagang. Þæfingsfærð og éljagangur er á Hálfdán, Mikladal og á Kleifarheiði, en mokstur stendur yfir.

Vesturland: Snjóþekja eða hálka á flestum leiðum en hálkublettir á stöku stað. Þæfingsfærð er á Fróðárheiði, en mokstur stendur yfir.

Suðvesturland: Snjóþekja, hálka eða hálkublettir er á flestum leiðum.

Höfuðborgarsvæðið: Hálkublettir eru á öllum stofnbrautum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert