Ísland verði ekki vanrækt lengur

Michael R. Pompeo, utanríksráðherra Bandaríkjanna í Hörpu í dag.
Michael R. Pompeo, utanríksráðherra Bandaríkjanna í Hörpu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilganginn með heimsókn sinni til Íslands sagði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í Hörpu í dag ekki síst vera þann að styrkja tengslin við bandamenn Bandaríkjamanna sem hefðu verið vanrækt á liðnum árum í tíð fyrri ríkisstjórna landsins.

Þannig hefði hann áður en hann kom til Íslands heimsótt ríki í Austur-Evrópu einkum í þessum sama tilgangi. Þessi ríki yrðu ekki vanrækt framar. Bandaríkin þyrftu á þessum bandamönnum sínum að halda. Viðræður Pompeos við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Hörpu snerust ekki síst um að komið yrði á sameiginlegum vettvangi til þess að stuðla að auknum viðskiptum á milli ríkjanna tveggja auk umræðna um varnarmál og Norðurslóðir.

Pompeo var meðal annars spurður að því hvort slíkt samstarf gæti á endanum leitt til fríverslunarsamnings á milli landanna sagði hann að samkomulagið nú snerist aðallega um það aðtengja saman fjárfesta og fyrirtæki á milli ríkjanna og stuðla að auknum viðskiptum. Hvort framtíðin fæli í sér fríverslunarsamning eða einfaldlega viðleitni til þess að draga úr viðskiptahindrunum á milli ríkjanna ætti hins vegar eftir að koma í ljós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert