Sammæltumst um að vera ósammála

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

„Ég lagði áherslu á tvö mál á fundinum. Annars vegar Norðurskautsráðið, sem Ísland tekur við formennsku í í maí, þar sem ég ítrekað það hversu miklu máli það skipti að við náum að viðhalda góðum og friðsömum samskiptum um þetta svæði, og hins vegar loftlagsbreytingar þar sem við sammæltumst um að vera ósammála. Sú umræða tók mestan tíma á fundinum.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is um fund hennar með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík. Katrín segist ennfremur hafa rætt um kjarnorkuafvopnum þar sem hún hafi lýst áhyggjum sínum af uppsögn kjarnorkuvopnasamkomulagsins á milli Bandaríkjanna og Rússlands.

„Þetta voru nokkurn veginn sömu mál og ég ræddi á leiðtogafundi NATO síðasta sumar við forseta Bandaríkjanna þar sem ég áréttaði þá afstöðu mína og okkar að því fleiri kjarnorkuvopn, því verr,“ segir Katrín. Spurð um þau ummæli Pompeo á blaðamannafundi í dag að Bandaríkin vildu efla tengsl sín við Ísland á viðskiptasviðinu og í varnarmálum segir hún:

„Það er auðvitað varnarsamningur í gildi á milli Íslands og Bandaríkjanna en á sama tíma hefur ekki verið rætt um neina fasta viðveru hér á landi og það var ekki rætt á okkar fundi,“ segir Katrín. Það hefði ekki farið framhjá neinum að aukin hernaðarleg áhersla væri á Norður-Atlantshafið og Norðurslóðir en hún hefði haldið á lofti sínum sjónarmiðum um að fríðsamleg samskipti væru alltaf besta lausnin og eina lausnin sem dugaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina