Stilla saman strengi fyrir fund

Samtök atvinnulífsins gerðu félögunum tilboð til lausnar kjaradeilunnar á síðasta …
Samtök atvinnulífsins gerðu félögunum tilboð til lausnar kjaradeilunnar á síðasta fundi, sem fram fór á miðvikudag. mbl.is/​Hari

Fulltrúar VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur hittast í dag fyrir fund sinn með Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara til þess að stilla saman strengi.

Samtök atvinnulífsins gerðu félögunum tilboð til lausnar kjaradeilunnar á síðasta fundi, sem fram fór á miðvikudag. Efling hefur tilkynnt að félagið muni leggja fram gagntilboð á fundinum í dag, og aðspurður hvort VR hyggist gera slíkt hið sama segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, félögin hafa vísað deilunni áfram saman og séu í þessu í sameiningu.

„Við höfum reynt að hittast fyrir alla fundi til þess að fara yfir það sem fram undan er og undirbúa okkur,“ segir Ragnar Þór í samtali við mbl.is. Fulltrúar stéttarfélaganna funduðu einnig um tilboð SA í gær.

Legið hefur ljóst fyrir að stjórnvöld þurfi að leggja sitt af mörkunum til þess að lausn náist í kjaradeilurnar, og í tilkynningu Eflingar frá í gær segir að krafa verði gerð um að skattbyrði tekjulægstu hópa verði með öllu aflétt eigi síðar en árið 2021.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að Starfsgreinasambandið hefði fengið sambærilegt tilboð frá SA. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær því verður svarað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert