„Þeir eru óheiðarlegir“

Forstjóri Auto Europe staðfestir við mbl.is að bílaleiguvefsíðan sé hætt …
Forstjóri Auto Europe staðfestir við mbl.is að bílaleiguvefsíðan sé hætt í viðskiptum við íslensku bílaleiguna Procar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alþjóðlega bílaleiguvefsíðan Auto Europe, sem er með bækistöðvar í Portland í Bandaríkjunum, er hætt viðskiptum við íslensku bílaleiguna Procar. Sú ákvörðun var tekin í dag, að sögn forstjóra fyrirtækisins, Imad Khalidi, sem svaraði fyrirspurn mbl.is í kvöld.

Samkvæmt heimildamanni mbl.is, sem starfaði áður hjá Procar og vill ekki láta nafns síns getið, hefur Auto Europe verið mikilvægasti samstarfsaðili Procar og veigameiri en nokkur annar milliliður í því að skaffa bílaleigunni viðskipti erlendra ferðamanna, en Auto Europe er í samstarfi við bílaleigur á yfir 20.000 stöðum í heiminum. 

„Við ákváðum að hætta að senda þeim viðskipti viðskiptavina okkar í dag,“ segir Khalidi í skriflegu svari sínu, en blaðamaður spurði einnig að því hvort Auto Europe ætlaði að endurskoða staðfestar bókanir Procar og láta viðskiptavini sína vita af stöðu bílaleigunnar. Sú er raunin.

„Við munum láta viðskiptavini okkar vita og færa þá í viðskipti hjá Avis sem er okkar alvörusamstarfsaðili,“ segir Khalidi og bætir við að lokum: „Þeir eru óheiðarlegir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka