Þyngja dóm vegna manndráps af gáleysi

Í dómi Landsréttar segir að í ljósi sakaferils ákærða telst …
Í dómi Landsréttar segir að í ljósi sakaferils ákærða telst refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir karlmanni á fimmtugsaldri sem var dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir ári síðan fyrir mann­dráp af gá­leysi. 

Í dómi Landsréttar segir að í ljósi sakaferils ákærða telst refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði. Þá þykir ekki efni til að binda refsinguna eða hluta hennar skilorði og því er niðurstaðan níu mánaða óskilorðsbundin fangelsisvist.

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi manninn í febrúar í átta mánaða fang­elsi, þar af sex skil­orðsbundna, fyr­ir mann­dráp af gá­leysi, lík­ams­meiðing­ar af gá­leysi og um­ferðarlaga­brot fyr­ir ofsa­akst­ur um Norður­lands­veg, þar sem hann var ófær um að stjórna bif­reið sinni vegna deyfi­lyfja, og að hafa valdið um­ferðaslysi þar sem ökumaður annarr­ar bif­reiðar lést.

Fram kem­ur í dómn­um að maður­inn hafi ekið á 162 kíló­metra hraða á klukku­stund þar sem 90 km/​klst er há­marks­hraði í júní 2016 án öku­rétt­inda. Bif­reiðin hafi verið í ónot­hæfu ástandi vegna ástands hemla á vinstra fram­hjóli, veru­lega þunnra hemlak­lossa í aft­ur­hjól­um, ryðmynd­un­ar í hemla­disk hægra meg­in að aft­an og óvirks högg­deyf­is og van­stilltra lega. Bif­reiðin hafi enn frem­ur verið án lög­boðinna ök­u­ljósa.

Maður­inn var að aka um Öxna­dals­heiði skammt vest­an við Grjótá þegar hann ók aft­an á aðra bif­reið, sem ekið var í sömu átt, sem við það kastaðist fram­an á smárútu sem ekið var aust­ur sama veg á móti báðum bif­reiðunum. Enn frem­ur seg­ir í dómn­um að maður­inn hafi játað brotið en hann eigi að baki lang­an saka­fer­il.

Maðurinn var svipt­ur öku­rétt­ind­um í eitt ár og enn frem­ur gert að greiða máls­kostnað upp á tæpa 1,3 millj­ón­ir króna. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að þessi ákvæði héraðsdóms skulu vera óröskuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert