Verkefni tengd ungmennum fengu hæstu styrkina

Stór hópur styrkþega ásamt fulltrúm velferðarráðs.
Stór hópur styrkþega ásamt fulltrúm velferðarráðs. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Ár hvert veitir velferðarráð hagsmuna- og félagasamtökum styrki til verkefna á sviði velferðarmála. Styrkþegar, sem hlotið hafa styrk fyrir árið 2019, veittu þeim viðtöku í Iðnó í gær. Veittir voru styrkir fyrir einstök verkefni og starf félaga- og hagsmunasamtaka var styrkt til eins eða þriggja ára.

Árlega setur ráðið sér ákveðnar áherslur vegna úthlutun styrkja og að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni sem bæta líðan og hag barna- og ungmenna og fjölskyldna þeirra. Einnig lagði velferðarráð áherslu á verkefni sem stuðla að geðheilbrigði, virkni og hvers konar atvinnu- og samfélagsþátttöku.

Minningarsjóður Bergs Snæs fær níu og hálfa milljón til að stofna stuðningssetur í höfuðborginni fyrir ungt fólk í vanda. Minningarsjóður Einars Darra, Ég á bara eitt líf, fær níu milljónir í baráttu um vitundarvakningu og forvarnir gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Meðal verkefna Ég á bara eitt líf er að halda þjóðfund með ungu fólki um hagi og líðan þess. Fundurinn mun veita borginni mikilvægar upplýsingar um hvaða leiðir ungt fólk sér til bæta lífsskilyrði sín.

Hjálpræðisherinn fékk tvo styrki til verkefna alls tvær og hálfa milljón. Milljón fyrir Opið hús eða mat, kaffi og spjall fyrir þá sem eru einmana og utangarðs og eina og hálfa milljón fyrir heimanámsaðstoð fyrir börn og unglinga.

Handaband fékk eina milljón fyrir þróunarverkefni sem gengur út á að bjóða upp á virkniúrræði, skapandi vinnustofur, á félagsmiðstöðvum og samfélagshúsum Reykjavíkurborgar.

Rauði krossinn fékk milljón til Heimsóknarvina og Styrktarsjóður Ljósbrots fær milljón fyrir lýðheilsustöðina Pepp Upp eða Framtíð til farsældar. Verkefnið er sérstaklega sniðið að ungmennum sem glíma við depurð, kvíða, einmannaleika og fíknivanda en vilja ná tökum á lífinu og byggja sig upp.

Fimm félagasamtök fá styrk til þriggja ára, AE Starfsendurhæfing, Geðhjálp, Hjálparstarf kirkjunnar, Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu og klúbburinn Geysir. AE starfsendurhæfing fær þar hæsta styrkinn níu milljónir sex hundruð og fimmtíu þúsund á ári fyrir Hlutverkasetur.

Alls bárust 52 umsóknir um styrki velferðarráðs en ekki var unnt að koma til móts við þær allar í ár og samþykkt var að veita styrki til alls 35 verkefna. Við afhendingu styrkjanna sagði formaður velferðarráðs, Heiða Björg Hilmisdóttir, að metnaður einkenndi umsóknir og vilji umsækjenda til að stuðla að góðri þjónustu til umbjóðenda sinna sem og að stuðla að bættri líðan og högum borgarbúa almennt.

Lista yfir alla styrkhafa má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert