RÚV verði að gefa eftir

Háttsemi RÚV er meðal meginorsaka erfiðrar stöðu einkarekinna fjölmiðla á …
Háttsemi RÚV er meðal meginorsaka erfiðrar stöðu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi, segir í umsögnum margra þeirra. Eggert Jóhannesson

„Í þessu samkeppnisumhverfi skiptir nýtt frumvarp menntamálaráðherra nær engu máli. Ef raunverulegur vilji er til að leiðrétta markaðinn verður að koma böndum á Ríkisútvarpið og myndi sú breyting þá nýtast öllum samkeppnisaðilum,“ segir Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri afþreyingarsölu hjá Símanum, í umsögn sinni við frumvarp um styrki til fjölmiðla.

Fleiri umsagnir við frumvarpið taka í sama streng. Ofarlega á baugi hjá nær flestum fjölmiðlum sem senda inn umsögn er einmitt þetta mál: háttsemi Ríkisútvarpsins og áhrif hennar á íslenskan fjölmiðlamarkað.

Þannig segir í umsögn Torgs ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins, að „staða einkarekinna fjölmiðla hér á landi verður hvorki rædd né skoðuð nema í samhengi við starfsemi RÚV á fjölmiðlamarkaðnum.“ Því „yfirburðastaða RÚV á markaði er stærsta ástæðan fyrir því að einkareknir miðlar standa höllum fæti á þessum markaði.“

Á þessum grundvelli dæma þessir aðilar frumvarpið ógilt. Torg segir það ekki leysa að neinu leyti þau vandamál sem innlendir miðlar standa fyrir. Magnús Ragnarsson kallar það „lítinn plástur á risastórt mein“ sem jafnvel gæti orðið til þess að skekkja markaðinn enn meira.

Kjarninn samdóma

Löng og ítarleg umsögn Kjarnans er samdóma þessum umsögnum og segir nauðsynlegt skref að breyta rekstrarfyrirkomulagi ríkismiðilsins með því að draga úr umsvifum hans á auglýsingamarkaði.

Í umsögn Kjarnans um fjármál Ríkisútvarpsins: „Fjárlög ársins 2019 gera ráð fyrir því að framlag ríkissjóðs til RÚV hækki um 534 milljónir króna, eða um 12,8 prósent. Breyt­ing­una má rekja til 175 milljón[a] króna hækk­unar á fram­lagi til RÚV vegna sjóðs sem ætlað er að kaupa efni frá sjálf­stæðum fram­leið­endum hér­lendis og 360 milljón[a] króna hækk­unar á fram­lagi til RÚV.

Alls mun RÚV fá um 4,7 milljarða króna úr ríkissjóði á árinu 2019. Því má ætla að tekjur RÚV fari nálægt, og jafnvel yfir, sjö milljarða króna í ár ásamt þeim auglýsingatekjum sem auglýsingadeild fyrirtækisins, ein sú aðgangsharðasta og öflugasta á landinu, mun væntanlega ná inn í kassann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert