Staðbundnar fréttaveitur hlunnfarnar

Staðbundin dagblöð kvarta sáran yfir þröngum skilyrðum í fjölmiðlafrumvarpi.
Staðbundin dagblöð kvarta sáran yfir þröngum skilyrðum í fjölmiðlafrumvarpi. mbl.is/Snorri

„Og hvernig á ég að geta tekið mér sumarfrí ef kvöðin er sú að daglega þurfi að birtast frétt?“ spyr einn.

„Undirritaðir gera athugasemdir við það skilyrði að svæðisbundinn prentmiðill skuli koma út að lágmarki 48 sinnum á ári,“ segir annar. Um það skilyrði segir sá þriðji: „Ósanngjarnt ákvæði.“

Fjölda staðbundinna fjölmiðla íslenskra þykir sinn hlutur fyrir borð borinn í frumvarpi um breytingar á fjölmiðlalögum, ef marka má umsagnir þeirra flestra inni á samráðsgáttinni á vefsvæði stjórnvalda.

Í frumvarpinu kveður á um að netmiðlar verði að birta fréttir daglega. Og að prentmiðlar verði að vera prentaðir 48 sinnum á ári. Það er, þeim er skylt að vera minnst vikublöð, með fríum.

Meðal staðbundinna fréttaveita af landsbyggðinni sem senda inn umsögn eru Skessuhorn (Vesturland), Siglfirðingur.is, Mosfellingur, Kópavogsblaðið og Fjarðarfréttir.

Krafan í mótsögn við markmið frumvarpsins

Þessar kröfur munu gerðar, að öllu óbreyttu, á þá fjölmiðla sem vilja sækja um styrk og verður það óháð því hvort þeir eru staðbundnir eður ei. Staðbundnir fjölmiðlar verða þó undanþegnir skilyrði um þrjá starfsmenn í fullu starfi, skilyrði, sem hefðbundnir fjölmiðlar er miðla óstaðbundnu efni munu þurfa að lúta.

Ólafur Hauksson, fv. blaðamaður og nú almannatengill hjá Proforma, gerir athugasemdir þar að lútandi: „Skilyrði endurgreiðslu eru hvort sem er það mikil og ítarleg að krafan um lágmarks fjölda [3] sem starfar við fjölmiðilinn er óþörf og ólýðræðisleg.“

Þar nefnir hann miðla á borð við turisti.is og eirikurjonsson.is, miðlar hvers efni hann segir byggja á sjálfstæðri frétta- og heimildaöflun. Því eigi þeir ekki síður að hljóta styrk frá ríkissjóði fyrir sín störf, af þeim sökum einum að vera ekki staðbundnir.

Loks segir Ólafur kröfuna um þriggja manna starfsmannahóp í mótsögn við markmið frumvarpsins um „að styðja við sterkar ritstjórnir með slagkraft til metnaðarfullra verkefna en ekki síður við fjölbreytta flóru smærri miðla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert