Stefán spyr um afdrif Hrekkjusvínanna

Hrekkjusvínin sjást hér standa á Skólavörðuholtinu árið 1972.
Hrekkjusvínin sjást hér standa á Skólavörðuholtinu árið 1972. Ljósmynd/ Bókin Útisýningarnar á Skólavörðuholti 1968-1972.

Stefán Andrésson, sonur Þorbjargar Pálsdóttur myndhöggvara, auglýsir nú eftir afdrifum eins af listaverkum móður sinnar.  „Árið 1972 var sýning á höggmyndum á Skólavörðuholtinu og þar tók móðir mín Þorbjörg Pálsdóttir þátt með verkinu Hrekkjusvín. Sýningin var send út á land, bæði á Neskaupstað og til Vestmannaeyja. Við systkinin höfum séð myndir af verkinu á báðum stöðum en í dag vitum við ekkert um verkið,“ skrifar Stefán í fyrirspurn á Facebook-síðunni Gamlar ljósmyndir.

Hann auglýsir því næst eftir upplýsingum um afdrif verksins og segir „allar upplýsingar“ vel þegnar.

Spurður hvort fyrirspurnin hafi skilað einhverju segir Stefán í samtali við mbl.is að hann hafi fengið fullt af „lækum“. „Það hafa þó engar ábendingar borist um hvar verkið kunni að vera,“ segir hann.

Verkið var, líkt og áður segir, á útisýningu á Skólavörðuholtinu 1972 og man Stefán vel eftir því. „Þetta verk var úti í garði á Sjafnargötunni í eitt eða tvö ár í kringum þetta og ég smíðaði sjálfur pallinn sem var settur undir það,“ segir hann og kveður þau systkinin öll hafa verið á kafi í að aðstoða móður sína við listsköpunina.

Spurður hvort hann sé nokkuð annað hrekkjusvínanna í verkinu, segir hann svo ekki vera. Stelpan sem verður fyrir hrekknum sé hins vegar skírskotun í annað verk sem Þorbjörg gerði um feimna stelpu sem stendur út í horni.

Stefán og Katrín systir hans eru hins vegar fyrirmyndir verksins Piltur og stúlka sem stendur við Hljómskálagarðinn og kallaði listakonan sjálf það jafnan Kötu og Stebba. Höfuðborgarbúar kannast þá eflaust margir við verk Þorbjargar, Dansleikinn, sem stendur við Perluna.

Þorbjörg Pálsdóttir myndhöggvari er hér árið 2002 við eitt verka …
Þorbjörg Pálsdóttir myndhöggvari er hér árið 2002 við eitt verka sinna ásamt Ásmundi Ásmundssyni, öðrum félaga í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

 Ekkert spurst til Hrekkjusvínanna frá því í Eyjum

Að sögn Stefáns var átak í gangi, List um landið, um það leyti sem Hrekkjusvínin voru á útilistasýningunni á Skólavörðuholtinu. Verkið var þess vegna, síðar þetta sama ár, sent ásamt öðrum verkum til Neskaupstaðar og svo til Vestmannaeyja. „Síðan vitum við ekkert meira,“ segir hann. „Það var enginn á þeim tíma sem hafði rænu á að leita að því og því var það ekki fyrr en einhvern tímann eftir að mamma deyr árið 2009, sem við vorum að fara í gegnum þetta og þá skaut þessi spurning upp kollinum: Hvar eru hrekkjusvínin?“

Hann segir þau systkinin, sig, Katrínu, Þóru og Andrés Narfa vera forvitin um hvar verkið kunni að vera niðurkomið í dag.

„Það fer ekkert á milli mála ef þetta er einhvers staðar til, þá þarf ekkert að tékka á því hvort að mamma gerði það, því hún er einstök í heiminum,“ segir Stefán og vísar þar til þess hversu auðkennanlegar fígúrurnar í verkum móður hans séu. Hver og ein sé um 150-170 sm há. „Þannig að þetta er ekkert smáverk.“ 

Biður Stefán þá sem mögulega vita eitthvað um afdrif Hrekkjusvínanna að hafa samband við sig á netfangið stand@mi.is.

Hver vera er um 150-170 sm að hæð og verkið …
Hver vera er um 150-170 sm að hæð og verkið því engin smásmíði. Ljósmynd/ Bókin Útisýningarnar á Skólavörðuholti 1968-1972.
mbl.is