Stoltir af breyttri bjórmenningu hér

Skipuleggjendur The Annual Icelandic Beer Festical fagna því að hátíðin …
Skipuleggjendur The Annual Icelandic Beer Festical fagna því að hátíðin verði haldin í Ægisgarði í næstu viku. Frá vinstri eru þeir Hinrik Carl Ellertsson, Ólafur Ágústsson og Ólafur S.K. Þorvaldz. mbl.is/Hari

„Við erum að fá algjörlega mögnuð brugghús í heimsókn til okkar. Þetta verður mjög spennandi hátíð,“ segir Ólafur Ágústsson, einn skipuleggjenda The Annual Icelandic Beer Festival sem haldin verður í áttunda sinn í næstu viku. Hátíðin stendur frá fimmtudegi til laugardags og er að þessu sinni haldin í aðdraganda þess að þrjátíu ár eru liðin frá fyrsta Bjórdeginum.

Helmingur gesta að utan

Þessi mikla bjórhátíð hefur frá upphafi verið haldin á Kex Hostel við Skúlagötu en verður nú færð í brugghúsið Ægisgarð úti á Granda. Alls er búist við um fimm hundruð gestum á hátíðina auk erlendra bruggara sem kynna framleiðslu sína. Athyglisvert er að tæpur helmingur gestanna er erlendur. „Það er ótrúlega mikið. Þetta eru gestir sem hafa vit á bjór, þetta er fólk sem keypti sér miða í nóvember,“ segir Ólafur.

Færri brugghús en áður

Mörg þekkt brugghús frá Bandaríkjunum sækja hátíðina heim að þessu sinni, til að mynda Tired Hands, de Garde, Black Project og Fonta Flora. Þá segist Ólafur vera sérstaklega spenntur fyrir gestum sínum frá New York; Other Half, Finback, KCBC og Interboro. „Other Half er vel þekkt en hin þrjú hafa verið mjög spennandi í þessari Brooklyn-senu upp á síðkastið. Þau eru hrikalega spennandi.“

En þó hátíðin sé vegleg og góðir gestir komi að utan eru erlendu brugghúsin færri en þau voru í fyrra. Þá voru alls 47 brugghús bókuð til leiks en í ár eru þau 35. „Við gátum ekki sinnt svona mörgu fólki og ákváðum því að fækka aðeins. Við viljum frekar hafa góðan kjarna svo við getum hitt fólkið, spjallað og gert eitthvað fyrir það.“

Ólafur kveðst sömuleiðis spenntur fyrir íslensku brugghúsunum enda vilji margir sýna sig og sanna á þessum vettvangi. „Það hefur svo margt gerst síðan í fyrra, það er margt búið að breytast. Þetta er orðin miklu flottari sena en hún var.“

Stoltir af hátíðinni

Og þar kemur einmitt að kjarnanum, tilganginum með þessari miklu bjórhátíð. „Hugmyndin hefur alltaf verið að breyta og bæta bjórmenninguna hér. Ég hef alltaf haft sterkar skoðanir á þessu og hugsaði sem svo að ef það bætast tíu manns við á hverju ári sem kynnast góðum bjór og fatta þetta, fatta það sama og ég hef fattað, þá yrði ég ánægður. Það hafa bæst við miklu fleiri en tíu ár hvert þannig að við erum bara ógeðslega stoltir af þessari hátíð. Það hefur tekist að breyta mynstri fólks sem hafði viðgengist lengi og nú er til dæmis ótrúlegasta fólk farið að drekka humlaða bjóra. Ég hef alltaf sagt að ef þú býrð til góða vöru, eldar góðan mat eða bruggar góðan bjór, þá kemur fólk til þín. Á endanum fattar það hvað þú ert að gera. Og það hefur gerst með bjórmenninguna á Íslandi. Hér er orðinn til traustur hópur og hann er alltaf að stækka. Það skemmtilega er svo að þetta hefur snjóboltaáhrif eins og sést á því hvað úrvalið í ríkinu hefur aukist.“

Hugarfarsbreyting

Ólafur bendir á að margir hafi lagt hönd á plóg við þessa hugarfarsbreytingu er snýr að bjór hér á landi. Má þar nefna fjölmörg brugghús sem hafa sprottið upp á síðustu árum og áhugaverða bjórbari. Í næstu viku verður einmitt fjölbreytt dagskrá á bjórbörum í miðborg Reykjavíkur þar sem hægt verður að kynnast forvitnilegum bjórum frá erlendum brugghúsum á hátíðinni, jafnvel þó fólk hafi ekki keypt sér miða á hátíðina. Enn er þó eitthvað af lausum miðum í boði á heimasíðunni Kexbrewing.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert