Bryndís segist vera fórnarlamb

Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram.
Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér finnst einhvern veginn eins og þessar konur, sem leyfa sér að kalla sig femínista, hati kynsystur sína jafnvel meira en karlpungana.“ Þannig hefst Facebook-færsla Bryndísar Schram, þar sem hún fjallar meðal annars um ásakanir Carmenar Jóhannsdóttur gegn eiginmanni hennar, Jóni Baldvin Hannibalssyni.

Bryndís segist vera endanlega fórnarlambið og það hlakki í „þeim“. 

Carmen greindi frá áreitni af hendi Jóns Baldvins í byrjun árs en hún sakar Jón um að hafa þuklað á sér þegar hún var gestur á heimili hjónanna á Spáni síðasta sumar.

Bryndís lýsir því hvernig málin horfa við henni. „En við þessa konu, sem kallar sig Carmen, ætla ég bara að segja eitt: Ég kom gangandi á eftir þér upp stigann og horfði á þig leggja frá þér bakka með hrísgrjónum við hlið mannsins míns, sem var þegar sestur,“ skrifar Bryndís og heldur áfram:

„Og hefði ég séð hann, - sem ég hefði ekki komist hjá „strjúka rass þinn ákaft“, þá hefði ég ekki hikað við að sparka svo fast í rassinn á þér og hönd hans, að þið hefðuð hvorugt borið barr ykkar síðan. End of story!“

mbl.is