Fjölmenni leitar Jóns Þrastar í Dublin

Jón Þröstur Jónsson hefur ekki sést síðan kl. 11 á …
Jón Þröstur Jónsson hefur ekki sést síðan kl. 11 á laugardagsmorgun í síðustu viku í Whitehall í Dyflinni.

Fjölskylda og vinir Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf  á laugardagsmorgun fyrir um viku í Dublin, hafa frá í gærmorgun gengið skipulega um hverfi borgarinnar í allsherjarleit. Á bilinu 12 til 15 manns hafa leitað hans frá í gærmorgun þegar skipulögð leit hófst, en nokkrir hafa leitað frá því síðustu helgi.

Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar, segir í samtali við mbl.is að fyrstu dagarnir eftir að Jón Þröstur hvarf hafi farið í að vinna úr gögnum sem voru til staðar í samstarfi með lögreglunni. Þar á hann meðal annars við upptökur og fleira, en með upptökum var meðal annars hægt að þrengja leitina örlítið.

Davíð segir að eftir því sem hafi liðið á vikuna hafi vinum og ættingjum fjölgað sem komu út og ákveðið hafi verið að byrja skipulagða leit þar sem notast var við þekkingu íslenskra björgunarsveitarmanna með sérhæfingu í leit. Engir álíka viðbragðsaðilar og björgunarsveitirnar eru til á Írlandi og því er það á herðum vina og fjölskyldu að leita. Davíð segir samvinnu við lögregluna þó hafa verið mjög góða.

Var borginni skipt niður í leitarsvæði þar sem líklegast er talið að hann finnist og hópnum svo skipt í teymi sem leita hvert svæði.

Whitehall-hverfið í Dublin er í norðurhluta borgarinnar.
Whitehall-hverfið í Dublin er í norðurhluta borgarinnar. Kort/Google

Ásamt hefðbundinni leit hafa verið sett upp veggspjöld, rætt við gangandi og leigubílstjóra og upplýsingar settar upp í verslunarmiðstöðvum. Davíð segir að fjölmargar ábendingar hafi borist og að unnið sé úr þeim. Þær hafi þó ekki enn hjálpað mikið við leitina.

Hann segir leitinni miða vel miðað við þá áætlun sem lagt var upp með. Leita þau frá morgni og langt fram á kvöld. Að öllu óbreyttu ættu þau að klára leitarsvæðin á morgun eða þriðjudag, en tekin verður staða á leitinni núna í kvöld að sögn Davíðs.

Jón Þröstur sást síðast í Whitehall-hverfinu á laugardagsmorguninn um ellefuleytið fyrir viku, en hverfið er í norðurhluta borgarinnar. Jón er 41 árs gamall og var klæddur í svartan jakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert