Mismunar miðlum gróflega

Réttlátara væri að fella niður tryggingagjald hjá fjölmiðlum eða fella niður virðisaukaskatt á áskriftarmiðla frekar en að ríkið endurgreiddi hluta ritstjórnarkostnaðar einkarekinna fjölmiðla. Þetta sagði Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri viðskipta Morgunblaðsins, í útvarpsþættinum Þingvöllum á K100 í morgun.

„Það gengur ekki að hér verði samþykkt lög sem mismuna miðlum með grófum hætti,“ sagði Stefán Einar.

Stefán Einar og Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri voru gestir Bjartar Ólafsdóttur í útvarpinu og umræðuefnið var staða einkarekinna fjölmiðla og fjölmiðlafrumvarp Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.

Stefán Einar Stefánsson og Magnús Geir Þórðarson.
Stefán Einar Stefánsson og Magnús Geir Þórðarson. Skjáskot/K100

Magnús Geir sagði í þættinum að samspil almannaþjónustu eins og Ríkisútvarpsins og einkarekinna miðla, bæði smærri og stærri, væri mikilvægt samfélaginu. „Mér finnst afskaplega jákvætt að stjórnvöld séu að svara ákalli um að mæta einkareknum miðlum og styrkja stöðu þeirra,“ sagði Magnús.

Stefán sagði varhugavert að fara þessa leið við að bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla, þ.e. að taka skattfé og endurútdeila því með formúlum sem embættismenn í ráðuneytum hafa sett upp. „Þar eru margir pyttir til að varast miðað við frumvarpið eins og það liggur fyrir. Eitt af því sem ég bendi á, og Árvakur bendir á í sinni umsögn við frumvarpið, er að eðlilegra væri að efla rekstrarumhverfið sem slíkt í stað þess að dæla í styrkjaformi inn á fjölmiðla,“ segir Stefán.

Hann sagði að skoða þyrfti auglýsingamarkaðinn í þessu sambandi. Síðasta sumar hafi staða einkarekinna fjölmiðla verið afar erfið á auglýsingamarkaði eftir að Ríkisútvarpið fór mikinn fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þurrkaði upp auglýsingamarkaðinn sem torveldaði auglýsingasölu mjög fyrir einkarekna miðla það sem eftir lifði árs.

Stefán gagnrýndi einnig hugmyndina um að einkareknir miðlar væru háðir útdeilingarvaldi ríkisins. Í því sambandi nefndi hann að reglurnar í frumvarpsdrögum Lilju væru gallaðar, m.a. með hámarksendurgreiðslu ritstjórnarkostnaðar upp á 50 milljónir króna á ári en stórir og burðugir einkareknir fjölmiðlar reka sig hratt upp í þakið á meðan smærri fjölmiðlar gætu sótt hámarksstuðning til ríkisins. Þannig séu þeir í samkeppni við Ríkisútvarpið sem er fjármagnað með ríkisstuðningi að stærstum hluta og smærri miðla sem njóta hlutfallslega mun meiri stuðnings en þeir stærri.

Hægt er að hlusta á út­varpsþátt­inn í heild sinni í spil­ar­an­um hér að ofan.

mbl.is

Bloggað um fréttina