Vara við öflugum hviðum þvert á veginn

Búast má við öflugum hviðum undir Vatnajökli. Þetta er vindaspáin …
Búast má við öflugum hviðum undir Vatnajökli. Þetta er vindaspáin á miðnætti í nótt. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Það er að bæta í vindinn og úrkomuna,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Veðurstofan varar við að það bætir í norðanhríðina á Norðausturlandi í kvöld og nótt og má því búast við varasömum akstursskilyrðum þar, einkum á fjallvegum.

Birta Líf segir versnandi spá einkum eiga við spásvæðið frá Langanesi og til og með Austfjörðunum. Áttin verði norðanstæðari í kvöld og nótt, áður en hún gangi yfir á morgun.

Jónas Gunnlaugsson, vaktstjóri á vaktstöð norður hjá Vegagerðinni, samsinnir þessu og segir vonda spá fyrir svæðið í kringum Húsavík og út á Þórshöfn og þar í kring í kvöld og nótt. Gera megi ráð fyrir að vegir verði illfærir á þeim slóðum á morgun og eru vegfarendur á Norðausturlandi því hvattir til að kynna sér stöðuna áður lagt er af stað í fyrramálið. Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að Ólafsfjarðarmúla verður lokað klukkan 22:00 vegna hættustigs.

Öflugar hviður undir Vatnajökli

„Það gætu orðið erfið skilyrði til ferðalaga, til að mynda á heiðum ef þar verður blint, skafrenningur og snjókoma,“ segir Birta Líf, en Veðurstofan bendir vegfarendum á að fara varlega og fylgjast með veðurspám og ástandi vega.

Hún segir einnig von á öflugum hviðum undir Vatnajökli, en þar gengur í norðanstorm líkt og á sunnanverðum Austfjörðum. „Það er von á öflugum hviðum þar í kvöld og þangað til í fyrramálið,“ segir Birta Líf og kveður von á hviðum sem geta náð 35-40 m/s og geta komið skyndilega þvert á veginn.

„Þetta er er eitthvað sem þarf að passa sig vel á,“ segir hún og hvetur þá sem eru þar á ferð að fylgjast vel með veðurspánni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert